„Við mættum hreinlega ekki til leiks. Ég er mjög svekktur með það til viðbótar leik okkar allt til enda. Ég vildi fá meira út leiknum frá mínum mönnum,“ sagði Þórir Ólafsson þjálfari Selfoss í samtali handbolta.is eftir 17 marka tap í kvöld fyrir Val, 38:21, á heimavelli Valsara.
„Við vorum með 28 misheppnuð skot og tapaða bolta að þessu sinni. Auk þess þá skiluðu menn sér seint og illa til baka sem varð þess valdandi að við fengum alltof mörg mörk á okkur eftir hraðaupphlaup og seinni bylgju. Því miður var þetta bara alls ekki góð frammistaða hjá okkur. Valur er með öflugt lið, það var vitað en við eigum engu að síður að gera mikið betur,“ sagði Þórir sem var vitanlega vonsvikinn yfir að hljóta þá útreið sem raun bar vitni um.
Höldum í jákvæðnina
„Við verðum bara að rífa okkur upp og halda í jákvæðnina. Mótinu er langt í frá lokið. Margir leikir eru eftir því kemur ekkert annað til greina en að halda áfram og mæta betur undirbúnir í næsta leik,“ sagði Þórir ennfremur en Selfoss fær efsta liðið, FH, í heimsókn í Sethöllina eftir viku í 15. umferð Olísdeildar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Vals: Andri Finnsson 7/1, Benedikt Gunnar Óskarsson 7, Ísak Gústafsson 5, Tjörvi Týr Gíslason 4, Magnús Óli Magnússon 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4, Allan Norðberg 2, Alexander Peterson 2, Aron Dagur Pálsson 1, Róbert Aron Hostert 1, Agnar Smári Jónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16/1, 43,2% – Stefán Pétursson 4, 100%.
Mörk Selfoss: Sveinn Andri Sveinsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson 4/2, Ásgeir Snær Vignisson 3, Alvaro Mallols Fernandez 3, Ragnar Jóhannsson 2, Sölvi Svavarsson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1, Gunnar Kári Bragason 1, Einar Sverrisson 1/1, Tryggvi Sigurberg Traustason 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 8/1, 24,2% – Alexander Hrafnkelsson 2, 13,3%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.