- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Magdeburg er þýskur meistari – Arnór og félagar eiga ennþá von

Samsett mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Arnór Þór Gunnarsson og lærisveinar hans í Bergischer HC halda í vonina um að halda sæti sínu í þýsku 1. deildinni í handknattleik eftir dramatískan baráttsigur á Füchse Berlin í Max Schmeling Halle í Berlin í kvöld, 30:29. Sigurmarkið var skorað þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka. Áður hafði Berlínarliðið jafnað metin, 29:29, átta sekúndum fyrir leikslok. Þetta er aðeins fjórða tap Füchse Berlin í 33 leikjum í deildinni á keppnistímabilinu.

(Hér myndskeið af síðustu sekúndum leiksins í Berlin)

Sigurinn varð til þess að SC Magdeburg er þýskur meistari í handknattleik karla í þriðja sinn. Magdeburg vann leik sinn í kvöld og hefur sex stiga forskot á Füchse Berlin fyrir síðustu umferðina.

Tveggja stiga munur

Bergischer er áfram næst neðst með 20 stig, tveimur stigum á eftir Erlangen sem situr í 16. sæti og því síðasta örugga. Erlangen sækir Hannover-Burgdorf heim í lokaumferðinni á sunnudaginn en Bergischer tekur á móti Flensburg.

Áfram gott gengi

Gummersbach heldur áfram að gera það gott undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðarssonar. Liðið vann nýbakað sigurlið Evrópudeildarinnar, Flensburg, 34:28, í Flens-Arena í kvöld.

Gummersbach situr sem fastast í 6. sæti og ætti að eiga víst sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar í haust. Danski handknattleiksspekingurinn Rasmus Boysen segir að þar með taki Gummersbach þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn síðan tímabilið 2011/2012. Aðeins eru tvö ár síðan Gummersbach vann sér á ný sæti í efstu deild þýska handknattleiksins eftir nokkurra ára veru í 2. deild.

Kveðjuleikur Teits

Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach en Arnór Snær Óskarsson skoraði ekki mark að þessu sinni. Teitur Örn Einarsson skoraði tvisvar fyrir Flensburg en hann gengur til liðs við Gummersbach í sumar. Teitur Örn var að leika kveðjuleik sinn á heimavelli sem leikmaður Flensburg þar sem liðið sækir Bergischer HC heim í síðustu umferðinni á sunnudaginn.

SC Magdeburg er þýskur meistari 2024 og bikarmeistari auk þess að vinna heimsmeistarakeppni félagsliða í nóvember sl. Liðið getur unnið Meistaradeild Evrópu annað árið í röð. Leikið verður til úrslita í Lanxess Arena í Köln 8. og 9. júní. 

Janus Daði Smárason bætist þar með í hóp þeirra íslenskra handknattleiksmanna sem orðið hafa þýskir meistarar í handknattleik. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon eru að vinna titilinn í annað sinn. Þeir voru einnig meistarar með Magdeburg fyrir tveimur árum.

Áttu ekkert erindi

Ýmir Örn Gíslason og liðsmenn Rhein-Neckar Löwen áttu ekki erindi í meistara SC Magdeburg í SAP Arena í Mannheim að viðstöddum á þrettánda þúsund áhorfendum. Magdeburg vann stórsigur, 34:21.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og var markahæstur ásamt Daniel Pettersson og Albin Lagergrein. Juri Knorr skoraði einnig í fimm skipti fyrir Löwen og var markahæstur.

Ómar Ingi átti þrjár stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar.

Fór meiddur af leikvelli

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti eina stoðsendingu áður en hann fór meiddur af leikvelli á 19. mínútu eftir að hafa verið hindraður af Jannik Kohlbacher. Gísli Þorgeir kom ekkert meira við sögu í leiknum, ekkert frekar en Kohlbacher sem fékk rautt spjald.

Ýmir Örn skoraði heldur ekki fyrir Löwen og gerðist ekki mjög brotlegur í varnarleiknum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Staðan:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -