Íslenska landsliðið í handknattleik tryggði sér sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins með frábærum sigri, 23:18, á Slóvenum í úrslitaleik G-riðils í Zagreb Arena. Varnarleikur íslenska landsliðsins var frábær frá upphafi og að baki varnarinnar var Viktor Gísli Hallgrímsson magnaður.
Frammistaða Viktors Gísla er einhver sú stórbrotnasta sem íslenskur markvörður hefur sýnt á stórmóti, ekki síst svo mikilvægum leik. Hann lék Slóvenana svo grátt að þeir köstuðu boltanum frekar framhjá eða yfir en að reyna að skora hjá Viktori, 17 skot, þar af 10 í fyrri hálfleik þegar hlutfallsmarkvarslan var 55%.
Íslenska landsliðið fer þar með áfram með fjögur stig og mætir Egyptum í fyrstu umferð milliriðlakeppninni á miðvikudagskvöld kl. 19.30. Egyptar eru einnig taplausir á mótinu. Eftir það taka við leikir gegn Króatíu og Argentínu á föstudag og sunnudag.
Vörnin og Gísli gáfu tóninn strax í upphafi. Ljóst var að undirbúningur fyrir leikinn heppnaðist afbragðsvel. Leikmenn Slóvena fengu aldrei tækifæri til þess að komast í sín færi. Þeir léku sig í vandræði hvað eftir annað, hentu boltanum út af eða þá að íslensku varnarmennirnir hirtu af þeim boltann og skoruðu mark eftir mark að loknu hraðaupphlaupi. Þegar 20 mínútur voru liðnar var staðan 11:4, og Uros Zorman þjálfari Slóvena þegar búinn að taka tvö leikhlé til að berja í brestina.
Staðan var 14:8 í hálfleik. Í síðari hálfleik náðu Slóvenar aldrei áhlaupinu sem þeir þurftu. Þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð í sóknarleiknum. Varnarmenn íslenska liðsins gáfu þeim engin grið. Þá sjaldan það átti sér stað hélt Viktor Gísli áfram að leika þá grátt. Slóvenar nánast lögðu niður vopnin og töldu mínúturnar til leiksloka.
Eins og áður segir þá sprakk varnarleikur og markvarslan hreinlega út í þessum leik. Að því leytinu til var um að ræða einn af eftirminnilegustu landsleikjum síðari ára. Og Viktor Gísli, maður minn!
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 7, Aron Pálmarsson 5, Janus Daði Smárason 3, Orri Freyr Þorkelsson 3, Elliði Snær Viðarsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1, Elvar Örn Jónsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 17/1, 48,6%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is var í Zagreb Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.