Handknattleiksmaðurinn sterki Magnús Óli Magnússon fer ekki með Valsliðinu til Serbíu í fyrramálið. Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals staðfesti þessi slæmu tíðindi í samtali við handbolta.is í kvöld eftir viðureign Vals og Selfoss í átta liða úrslitum Powerade-bikarsins. Valur mætir serbneska liðinu Metaloplasika í Sabac síðdegis á laugardaginn í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar.
Magnús Óli meiddist á æfingu Valsliðsins í gær þótt þess hafi ekki beinlíns orðið vart því hann hann lauk henni. Fljótlega eftir æfinguna var ljóst að ekki var allt með felldu því Magnús Óli var þjakaður, að sögn Óskars Bjarna. Í fyrstu var talið að Magnús Óli væri ristarbrotinn en að sögn Óskars Bjarna virðist það ekki vera raunin. Hugsanlegt er að gömul meiðsli hafi tekið sig upp í ristinni eða við ökklann. Óskar Bjarni sagði málið skýrast um leið og Magnús fær tíma í segulómun sem væntanlega verður vonandi fyrr en síðar.
Sannarlega verður skarð fyrir skildi af fjarveru Magnúsar Óla í leiknum í Serbíu. Hann er einn allra reyndasti og öflugasti leikmaður Valsliðsins sem vann fyrri viðureignina við Metaloplastika með eins marks mun á heimavelli á sunnudagskvöldið, 27:26.
Anton Rúnarsson aðstoðarþjálfari Vals hleypur væntanlega í skarðið fyrir Magnús Óla í leiknum ytra sem hefst klukkan 17.30 á laugardaginn.