- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Meistaradeild Evrópu: Haukur, Janus Daði og Ómar Ingi atkvæðamiklir

Janus Daði Smárason leikmaður SC Magdeburg. Mynd/IHF
- Auglýsing -

Íslensku landsliðsmennirnir Haukur Þrastarson, sem leikur með Kielce, og Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon, sem leika með Magdeburg, voru í lykilhlutverki í sigrum sinna liða í 9. umferðar riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld.

Haukur var markahæstur hjá Kielce með sjö mörk úr sjö skotum í tíu marka sigri, 35-25, á Eurofarm Pelister frá Norður-Makedóníu. Á meðan í Magdeburg voru Janus Daði og Ómar Ingi í fararbroddi í sóknarleik síns liðs, sá fyrrnefndi varð markahæstur með átta mörk auk þriggja stoðsendinga og Ómar Ingi kom þar á eftir með fjögur mörk og eina stoðsendingu.

Rúlluðu yfir gestina í síðari hálfleik

Kielce átti í litlum vandræðum með botnlið A-riðils, Eurofarm Pelister, á heimavelli í Póllandi. Liðið náði snemma forystunni og leiddi með fimm mörkum eftir fyrri hálfleik, 18-13. Haukur Þrastarson var atkvæðamikill hjá Kielce, skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik og fjögur af fyrstu sjö mörkum liðsins í seinni hálfleik er heimamenn einfaldlega rúlluðu yfir gestina. Munurinn var kominn í tíu mörk, 26-16, þegar tuttugu mínútur voru enn eftir til leiksloka. Sá munur hélst svo að segja óbreyttur til enda og lauk leiknum með tíu marka sigri Kielce, 35-25.

Með sigrinum er Kielce í 3. sæti A-riðils með tólf stig líkt og Álaborg, sem er í öðru sæti, og þremur stigum á undan næstu liðum fyrir neðan.

Öflugur Janus Daði

Í B-riðli fékk Magdeburg franska liðið Montpellier í heimsókn. Fyrri hálfleikur var framan af í járnum og liðin skiptust á eins marks forystu. Á síðustu mínútum fyrri hálfleiks tókst Magdeburg þó að ýta aðeins frá sér og breyttu stöðunni úr 10-10 í 14-11 áður en flautað var til hálfleiks. Janus Daði Smárason var kominn með fimm mörk eftir 30 mínútur og Ómari Ingi Magnússon tvö.

Magdeburg hóf seinni hálfleikinn betur og náðu tvisvar sex marka forskoti, 20-14 þegar 20 mínútur voru eftir og 23-17 þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Gestunum frá Frakklandi tókst að klóra aðeins í bakkann og færa spennu í leikinn með því að minnka muninn í tvö mörk, 26-24, þegar tvær mínútur voru eftir. Nær komst Montpellier þó ekki, Janus Daði skoraði 27. mark Magdeburg og lagði svo upp það síðasta fyrir Þjóðverjann Lukas Mertens í næstu sókn. Úrslitin 28-24 fyrir Magdeburg, sem með sigrinum jafnar Veszprém að stigum með 14 stig í 2. – 3. sæti B-riðils.

Sigurmark á síðustu sekúndum leiksins

Sannkallaður toppslagur átti sér stað þegar Barcelona sótti Veszprém heim þar sem landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson leikur. Mikið jafnræði var með liðunum lengst af en spænska liðið komst þó þremur mörkum yfir, 14-17, þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Tveimur mörkum munaði í hálfleik, 15-17 fyrir Barcelona, sem var svo áfram skrefi á undan í upphafi síðari hálfleiks.

Í stöðunni 20-22 fyrir Barcelona þegar um 20 mínútur voru eftir átti Veszprém öflugan viðsnúning og skoruðu þrjú mörk í röð á innan við tveimur mínútum, 23-22. Mikil spenna því komin aftur í leikinn og liðin skiptust á að vera með forystuna næstu mínúturnar. Þegar níu mínútur voru eftir af leiknum komst Veszprém yfir, 28-27, með marki frá Gasper Marguc. Börsungar svöruðu hins vegar strax með tveimur mörkum í röð, 28-29 er sjö mínútur voru eftir.

Frakkinn Kentin Mahe jafnaði leikinn fyrir Veszprém í 30-30 þegar innan við tuttugu sekúndur voru eftir. Barcelona hafði þó tíma fyrir eina sókn í viðbót og var það samlandi Mahe, franska skyttan Dika Mem sem tryggði Börsungum sigur fimm sekúndum fyrir leikslok, 30-31. Bjarki Már Elísson komst ekki á blað hjá liði Veszprém í gærkvöld. Spænski hornamaðurinn Aleix Gómex var markahæstur hjá Barcelona með átta mörk en Frakkinn Nedim Remili var markahæstur heimamanna með sex mörk.

Með sigrinum er Barcelona efst í B-riðli með 16 stig. Veszprém og Magdeburg fylgja þar skammt á eftir með 14 stig.

Staðan í riðlum Meistaradeildar Evrópu karla

Standings provided by Sofascore
Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -