Fjórir leikir fóru fram í Meistaradeild kvenna í handknattleik í gær og sá sögulegi atburður átti sér stað að tyrkneska meistaraliðið Kastamonu vann sinn fyrsta leik í sögu keppninnar. Kastamonu tapaði öllum 14 leikjum sínum á síðustu leiktíð og var búið að tapa fyrstu fjórum viðureignunum á þessari leiktíð. Hinn sögulegi sigur var á móti á Lokomotiva Zagreb, 29 – 26, sem fór fram á heimavelli tyrkneska meistaraliðsins.
Í Ungverjalandi náðu heimakonur í FTC að næla sér í annað stigið gegn Evrópumeisturum Vipers eftir að hafa verið fimm mörkum undir á kafla í seinni hálfleik. Tvö mörk FTC á síðustu 50 sekúndum leiksins tryggði liðinu jafntefli, 26 – 26.
Nýliðarnir í Rapid Búkaresti halda áfram að koma á óvart en það gerði jafntefli við Buducnost og eru því enn ósigrað í B-riðli. Danmerkurmeistarar Odense Håndbold gerðu góða ferð til Frakklands og vann Brest, 21 – 25, og hafa nú unnið tvo leiki í röð eftir að hafa tapað fyrstu þremur leikjunum.
Leikir gærdagsins
A-riðill:
Brest 21 – 25 Odense (8 – 16)
- Sóknarnýting Brest í fyrri hálfleik var aðeins 30% og tókst liðinu aðeins að skora 8 mörk sem er versta frammistaða liðsins í einum hálfleik í Meistaradeildinni.
- Althea Reinhardt markvörður Odense lék á alls oddi og var með 53,3% markvörslu í leiknum.
- Tonje Loseth var markahæst í liði Odense með átta mörk. Hún spilaði síðustu tvær leiktíðir með Brest.
- Þetta var þriðji tapleikur franska liðsins í síðustu 27 heimaleikjum í Meistaradeildinni. Í fyrsta skipti frá tímabilinu 2018/19 heftur liðið tapað tveimur leikjum í röð á heimavelli.
FTC 26 – 26 Vipers (12 – 14)
- Ekkert lið hefur gert fleiri jafntefli, fjögur, á síðustu tveimur leiktíðum en FTC. Þrjú þeirra hafa verið á heimavelli.
- Vipers náði 6 – 2 kafla á tíu mínútum einkum vegna gríðarlega góðs varnarleiks.
- Anna Vyakhireva var markahæst í liði Vipers með átta mörk.
- Katrine Lunde markvörður Vipers sýndi enn einu sinni hversu góður markvörður hún er. Hún varði 16 skot í leiknum eða um 39% af þeim skotum sem hún fékk á sig.
- Ríkjandi meistarar í Vipers hafa nú jafnað Bietigheim og CSM Búkaresti að stigum en þau síðarnefndu eiga leiki til góða í dag.
B-riðill:
Kastamonu 26 – 23 Lokomotiva Zagreb (16 – 11)
- Bæði lið fóru varfærislega af stað í leiknum. Það tók þrjár mínútur að skora fyrsta markið.
- Lokomotiva hafði eins marks forystu eftir um tíu mínútna leik en þá tók við slæmur kafli hjá liðinu sem einkenndist af mörgum mistökum. Það nýttu heimakonur sér og komust yfir, 11 – 8.
- Króatíska liðið reyndi að koma til baka en allar tilraunir strönduðu á Yaren Berfe Göker markverði Kastamonu. Hún var með 55% markvörslu í fyrri hálfleik.
- Tölfræði leiksins talar sínu máli, Kastamonu var með 64% sóknarnýtingu á meðan Lokomotiva var aðeins með 48% sóknarnýtingu í fyrri hálfleik.
- Mest var forysta tyrkneska liðsins sjö mörk.
- Azenaide Danila José Carlos var markahæst hjá Kastamonu með níu mörk en hjá Lokomotiva voru Mia Tupek, Ana Malec og Stela Posavec með fimm mörk hver.
Buducnost 30 – 30 Rapid Búkaresti (13 – 10)
- Liðin skiptust á að hafa forystu í upphafi leiksins.
- Markverðir liðanna slógu upp sýningu í fyrri hálfleik. Ivana Kapitanovic varði átta skot í marki Rapid en Armelle Attingré varði 12 í marki Buducnost.
- Á tuttugustu mínútu skoraði Buducnost fjögur mörk í röð og komst tveimur mörkum yfir.
- Í upphafi seinni hálfleiks fóru spænsku leikmennirnir í liði Rapid, Ainhoa Hernández Serrador og Marta Lopez Herrero, mikinn og hjálpuðu rúmenska liðinu við að snúa leiknum sér í vil.
- Lokamínútur leiksins voru hnífjafnar og æsispennandi. Rúmenska liðið hélt að Alexandra Lacrabere hefði tryggt sigurinn með því að skora úr vítakasti á lokamínútu leiksins. Leikmenn Buducnost neituðu að játa sig sigraða og tókst að jafna metin þegar um 30 sekúndur voru til leiksloka.
- Milena Raicevic var markahæst í leiknum. Hún skoraði 12 mörk fyrir Buducnost og er nú með 59 mörk í Meistaradeildinni.