Valur vann ÍBV í Meistarakeppni HSÍ í handknattleik kvenna í Origohöllinni í kvöld, 30:23, eftir að hafa verið marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:15. Í Meistarakeppninni mætast Íslands- og bikarmeistarar síðustu leiktíðar og slá tóninn fyrir komandi keppnistímabili. Flautað verður til leiks í Olísdeild kvenna laugardaginn 9. september.
ÍBV byrjaði afar vel. Liðið skoraði fjögur fyrstu mörkin og sjö af fyrstu 11 áður en Valsliðið vann sig inn í leikinn, einkum með betri varnarleik. Valur komst yfir í fyrsta sinn, 11:10. ÍBV svaraði með því að ná forystunni, 14:13 áður en Valur átti lokakafla fyrri hálfleiks.
Valsliðið var mikið sterkara í síðari hálfleik og virtist vera með leikinn í höndum sér allt til leiksloka. Varnarleikur liðsins var afar góður með Hildigunni Einarsdóttir og Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í aðalhlutverki.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir lék ekki með ÍBV vegna meiðsla og Sunna Jónsdóttir var ekki nema skugginn af sjálfri sér enda nýlega byrjuð að hreyfa sig eftir meiðsli.
Anna Úrsúla fór á kostum
Einnig eru nokkrir leikmenn Vals frá keppni vegna meiðsla, um lengri eða skemmri tíma. Af þeim sökum hefur Anna Úrsúla tekið fram skóna. Hún hefur reyndar æft með Valsliðinu lengi til þess að halda sér í formi. Eftir að þrír leikmenn sem leika í miðju varnarinnar heltust úr lestinni vegna meiðsla kallaði Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals á Önnu Úrsúlu. Hún fór á kostum í leiknum í kvöld, jafnt í vörn sem sókn.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8/4, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 5, Hildigunnur Einarsdóttir 4, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Lilja Ágústsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 2.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 14, 40%.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7/1, Elísa Elíasdóttir 7, Britney Emilie Florianne Cots 5, Karolina Olszowa 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Birna María Unnarsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 9, 23,7%.
Tölfræðin er fengin hjá HBStatz.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.