- Auglýsing -
- Norska meistararliðið Kolstad missir ekki aðeins frá sér leikmenn um þessar mundir. Nokkrir leikmenn liðsins auk þjálfarans Christian Berge hafa skrifað undir nýja samninga. Berge þjálfari ætlar að halda sínu striki við þjálfun Kolstad til ársins 2030. Martin Hovde hefur samið til ársins 2026 en Simen Lyse og Simon Jeppsson fram til 2027. Kolstad tilkynnti þetta á föstudag, degi eftir að Sander Sagosen kvaddi félagið og samdi við Aalborg Håndbold til loka leiktíðar 2029.
- Danski handknattleiksmaðurinn Simon Pytlick þvertekur fyrir að vera á þeim buxum að semja við Füchse Berlin og fá tækifæri til þess að leika með samherja sínum úr landsliðinu Mathias Gidsel. Pytlick segist vera trúr sínu núverandi félagi, Flensburg, og ekki standi til að flytja til þýsku höfuðborgarinnar.
- Slóvakinn Tomás Hlavatý tekur við þjálfun þýska meistaraliðsins HB Ludwigsburg í sumar þegar Daninn Jakob Vestergaard lætur af störfum. HB Ludwigsburg, áður Bietigheim, hefur um árabil verið öflugasta kvennalið Þýskalands. Hlavatý hefur viða komið við sem þjálfari á síðustu árum. Síðast var hann þjálfari norska liðsins Vipers Kristiansand sem lagt var niður í upphafi árs eftir að hafa lent í fjárhagslegum þrengingum.
- Vestergaard ákvað fyrir nokkru að hætta þjálfun HB Ludwigsburg af fjölskylduástæðum og flytja heim til Danmerkur. Þar bíður hans þjálfarastarf hjá Odense Håndbold sem er efst og ósigrað í úrvalsdeild kvenna. Vestergaard tók við þjálfun HB Ludwigsburg þegar Markus Gaugisch var ráðinn þjálfari þýska kvennalandsliðsins.
- Ole Gustav Gjekstad núverandi þjálfari Odense Håndbold hættir í sumar og einbeitir sér að þjálfun norska kvennalandsliðsins. Gjekstad var ráðinn eftirmaður Þóris Hergeirssonar og stýrir landsliðinu í fyrsta sinn í næsta mánuði í fjögurra liða móti í Hollandi.
- Lars Jørgensen fyrrverandi landsliðsmaður Dana í handknattleik lætur af starfi aðstoðarþjálfara kvennalandsliðsins í lok apríl. Jørgensen hefur verið aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins í átta ár. Hann hefur í hyggju að söðla um og mun þegar vera búinn að fá starf utan íþróttahreyfingarinnar í Danmörku.
- Uppsögn Jørgensen kemur í kjölfar brotthvarfs Jesper Jensen landsliðsþjálfara sem hættir um mitt árið og tekur við þjálfun kvennaliðs Ferencváros, FTC, í Búdapest í Ungverjalandi.