Fimmtudagskvöldið 1. okótóber var hinn 19 ára gamli Haukur Þrastarson, eitt mesta efni í evrópskum handknattleik, í leik með samherjum sínum í pólska meistaraliðinu Vive Kielce gegn Elverum í Noregi. Viðureignin var ein af mörgum þetta tímabilið í Meistaradeild Evrópu. Haukur var nýbyrjaður að leika með liðinu í Meistaradeildinni. Hafði fengið nokkur tækifæri í leikjum í pólsku deildinni.
Haukur vann boltann í vörn af sóknarmanni Elverum, geystist fram völlinn í hraðaupphlaup og skorað. Um leið og hann lenti á fótunum eftir að hafa stokkið upp og inn í víteiginn í átt að markverði Elverum var eins og vinstri fótleggurinn gæfi sig. Haukur lá eftir. Strax var óttast að illa hafi farið. Að krossband í vinstra hné hafi gefið sig.
Töfrabrögðin bíða
Sú var og raunin. Það kom skýrt fram þremur dögum síðar eftir ítarlega læknisskoðun hjá læknum Vive Kielce. Framundan var aðgerð á hnénu og margra mánaða endurhæfing. Engir kappleikir fyrr en næsta sumar. Hugsanlega allt að níu mánaða fjarvera frá handboltavellinum. Töfrabrögðin með handboltann verða að bíða betri tíma.
Kominn á góðan skrið
„Þetta var mikið áfall, svolítið sjokk,“ sagði Haukur þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í gær. „Ég var að nálgast mitt besta form, byrjaður að spila mikið og gera það vel. Kominn ágætlega inn í leikskipulagið og hraðann. Farinn að finna mig eins sagt er. Það hafði tekið sinn tíma bæði vegna þess að ég kom meiddur út í júlí og af því að öll samskipti innan liðsins fara fram á pólsku sem ég kunni ekkert. Ég hafði unnið mig áfram jafnt og þétt og fannst ég vera tilbúinn að taka við aukinni ábyrgð.
Ég var kominn á góðan stað. Meiðslin voru þar af leiðandi mikil vonbrigði sannkallaður skellur,“ sagði Haukur sem kom til Íslands 7. október til að gangast undir aðgerð á hnénu hjá Brynjólfi Jónssyni og Örnólfi Valdimarssyni, bæklunarlæknum.
Byrjaður í sjúkraþjálfun
„Svo var lokað fyrir aðgerðir tveimur dögum áður en röðin kom að mér. Ég varð að bíða um sinn en komst loksins að á síðasta föstudag. Síðan hef ég meira og minna legið fyrir. Fyrstu dagarnir eftir aðgerðina voru erfiðir. Nú dregur úr verkjunum með hverjum deginum og í morgun fór ég í fyrsta sinn í sjúkraþjálfun til Jónda sem mun sjá um mig næstu mánuði meðan ég stíg fyrstu skrefin,“ segir Haukur.
Jóndi, eða Jón Birgir Guðmundsson, sjúkraþjálfari á Selfossi, er þrautreyndur í sínu fagi. Hefur m.a. starfað með íþróttafólki á Selfossi um árabil og verið einn sjúkraþjálfara karlalandsliðsins í handknattleik síðustu ár.
Góða aðstaða og mikill stuðningur
„Það er ekkert annað að gera en að kyngja þessu, sætta sig við orðinn hlut og vinna eins vel úr stöðunni og hægt er. Ég efast ekki um að ég nái góðum bata á næstu mánuðum. Ég get ekki hugsað þetta öðruvísi.
Nú fer öll einbeiting í að ná fullum kröftum, koma sterkari til baka. Ég er afar heppinn að hafa góða aðstöðu til þess og sterkt bakland í þeim sem næst mér standa auk félagsins í Póllandi þar sem allir standa við bakið á mér og hafa gert frá fyrsta degi. Það hefur reynst mér afar dýrmætt að finna fyrir þessum mikla stuðninig frá upphafi,“ segir Haukur.
Eftir því var tekið fáeinum dögum eftir að Haukur meiddist að samherjar hans, þjálfari og fleiri hjá Vive Kielce, sendu honum stuðnings,- og baráttukveðjur á Facebook-síðu félagsins. „Um leið og þetta kom fyrir fann ég strax að ég var á góðum stað. Ég fékk mjög góðan stuðning frá öllum hjá félaginu. Vibrögðin styrktu mig, hvöttu til dáða því það var mikill skellur fyrir mig að verða fyrir meiðslunum.“
Fékk að velja
Haukur er ánægður með að hafa átt þess kost að fara í aðgerðina hér heima og einnig að geta farið í gegnum fyrstu mánuði endurhæfingarinnar í umhverfi sem hann þekkir vel til. Einnig hafi komið til greina að gera aðgerðina í Póllandi eða á Spáni þar sem þjálfarinn, Talant Dujshebaev þekkir vel til eftir að þjálfað og leikið á Spáni drjúgan hluta síns ferils.
„Það var ekki neinn vafi í mínum huga að fara heim og forráðamenn félagsins leyfðu mér að ráða þessu. Ég valdi Ísland og menn voru sammála mér að best væri að ég færi heim.“
Heima næstu mánuði
Haukur reiknar með að vera á Íslandi fram í lok janúar eða byrjun febrúar. „Það er engin tímapressa af hálfu félagsins að fá mig út á næstunni. Ég tek seinni hluta endurhæfingarinnar í Póllandi enda hefur félagið innan sinna raða frábæra lækna og sjúkraþjálfara sem hafa verið og verða í sambandi við okkur Jónda meðan ég verð undir hans handleiðslu.“
Endurhæfing og pólskunám
Meðan á þessu gengur verður Haukur að fylgjast með samherjum sínum í Vive Kielce í gegnum sjónvarp og tölvur. Sama verður upp á teningnum þegar HM í handbolta fer fram í janúar. Þar hefði Haukur viljað vera með samherjum sínum í íslenska landsliðinu.
„Ég hlakka til að komast út á völlinn aftur. Fara á EM 2022 með landsliðinu og stimpla mig inn aftur hjá Vive Kielce. Svo held ég áfram í pólskunáminu meðan ég verð hér heima. Ég þarf að komast inn í málið sem er ekki líkt neinu öðru sem ég þekki,“ sagði Haukur Þrastarson, handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is.