- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mikil vonbrigði að tapa leiknum

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Þetta var leikur sem var mikilvægt fyrir okkur að vinna en því miður þá gerðist það ekki,“ sagði Sigurgeir Jónsson, Sissi, þjálfari Stjörnunnar vonsvikinn í samtali við handbolti.is eftir eins marks tap Stjörnunnar fyrir Aftureldingu í annarri umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik að Varmá síðdegis í gær, 29:28. Stjarnan er þar með án stiga eftir tvær umferðir eins og KA/Þór.

Kæruleysisleg mistök

„Við gerðum of mörg kæruleysisleg mistök á lokakaflanum, til dæmis þegar við áttum möguleika á að auka forskot okkar. Þess í stað töpuðum við boltanum nokkrum sinnum og fengum á okkur hraðaupphlaup sem sneru leiknum,“ sagði Sissi sem var skiljanlega vonsvikinn eins og leikmenn Stjörnunnar.

Sjálfstraustið fór fljótt

„Okkur tókst að koma Aftureldingarliðinu á óvart í byrjun síðari hálfleiks með breytingum á varnarleiknum. Framan af síðari hálfleik gekk sóknarleikurinn einnig vel en undir lokin var hann orðinn staður auk þess sem ein og ein ætlaði að taka þetta á sig og vinna leikinn. Það gekk ekki. Þar á ofan er sjálftraustið fljótt að fara þegar vindarnir snúast,“ sagði Sissi sem hefur verk að vinna með Stjörnuliðið sem gekk í gegnum miklar breytingar í sumar. Þó eru eftir reyndir leikmenn eins og Eva Björk Davíðsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir svo dæmi séu tekin.

Tíu leikmenn úr 3. flokki

„Í bland við reynda leikmenn þá erum við með tíu leikmenn á þriðja flokks aldri í meistaraflokkshópnum. Það tekur sinn tíma að koma þessu saman. Við gátum alveg eins búist við að vera í þessari stöðu eftir tvo leiki, að vera án stiga. Við mættum Haukum í fyrstu umferð. Reiknað er með að Haukar verði í toppbaráttu. Síðan komum við hingað í Mosó á erfiðan útivöll gegn liði sem tapaði í fyrstu umferð. Okkar ætlun var að koma hingað og sækja stigin tvö en eins og sást á lokakaflanum þá var meiri baráttuhugur í Mosfellingum,“ sagði Sigurgeir Jónsson þjálfari Olísdeildarliðs Stjörnunnar.

Leikjadagskrá og staðan í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -