HSV Hamburg hefur komið mörgum á óvart í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik á þessu tímabili. Utan vallar heldiur erfiður fjárhagur áfram að þrengja að félaginu. Samkvæmt Hamburger Abendblatt á HSV nú yfir höfði sér stigarefsingu vegna vaxandi halla á eigin fé félagsins.
Neikvætt eigið fé
Stærsta vandamál félagsins er neikvætt eigið fé sem hefur versnað verulega á nokkrum árum. Þegar fjárfestirinn Philipp J. Müller þurfti að veita félaginu lán upp á samtals 7,1 milljón evra vorið 2024 til að tryggja keppnisleyfi fyrir tímabilið 2024/25 jukust skuldirnar enn frekar. Einnig í aðdraganda þessa tímabils þurfti HSV að brúa um tveggja milljóna evra lausafjárgat til að halda keppnisleyfi sínu.
Skýrar reglur
Reglur þýsku úrvalsdeildarinnar eru skýrar: félög verða árlega að minnka neikvætt eigið fé um að minnsta kosti tíu prósent. Ef það tekst ekki þrjú ár í röð leiðir það sjálfkrafa til fjögurra stiga frádráttar. Fyrir HSV er áskorunin gríðarleg. Viðmiðið fyrir útreikninginn var 500.000 evra mínus – félagið þurfti því að ná niður í 350.000. Þess í stað sýnir nýjasta uppgjör HSM Handball Sport Management og Marketing GmbH yfir sex milljóna evra halla.
Félagið vinnur nú að lausn þar sem hluta af láni Müllers verður breytt í hlutafé til að minnka neikvætt eigið fé og forðast refsiaðgerðir.
Góð staða innan vallar
Þrátt fyrir að fjögurra stiga frádráttur yrði áfall fyrir félagið stendur HSV íþróttalega séð á traustum grunni. Með 11 stig eftir 11 leiki er liðið um miðja deild – og gæti lifað af stigamissi án þess að vera í bráðri fallhættu.
En fjárhagslegar viðvörunarbjöllur hringja áfram í Hamborg og næstu mánuðir gætu ráðið úrslitum um framtíð félagsins í efstu deild.
Landsliðsmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson gekk til liðs við HSV Hamburg í sumar og hefur staðið sig vel.



