Gunilla Flink stjórnandi hjá sænska félagsliðinu Skara HF segir í samtali við Handbollskanalen að hugsanlegur misskilningur eða tungumálaörðugleikar hafi kannski komið fyrir að félagið hafi gert upp skuld sína við KA/Þór vegna komu Aldísar Ástu Heimisdóttur til sænska liðsins á síðasta sumri. Þ.e. ef félagið skuldar þá eitthvað.
Eins og kom fyrst fram á Akureyri.net á dögunum og síðar á handbolti.is þá hefur Skara HF ekki greitt fyrir landsliðskonuna sem var samningsbundin KA/Þór þegar hún söðlaði um. Forsvarsmenn KA/Þórs hafa reynt að innheimta skuldina en farið bónleið til búðar. Einnig hefur verið leitað á náðir HSÍ um liðsinni.
Flink segir að ef félagið skuldi KA/Þór þá verði sú upphæð innt af hendi. Upphæðin geti ekki verið há en segir síðan ekki ljóst hver hún sé nákvæmlega og að það kunni að hafa orðið misskilningur. „Við viljum vita hvað við eigum að greiða og fyrir hvað,“ segir Flink.
Öll félagaskiptagjöld eru greidd enda liggur það svo sem í augum uppi. Annars væri Aldís Ásta ekki með gilda leikheimild hjá Skara HF í gegnum sænska handknattleikssambandið.