„Þetta er bara mjög svekkjandi allt saman,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari eftir jafntefli, 38:38, gegn Sviss á Evrópumótinu í handknattleik karla í Malmö Arena í dag.
Jafntefli dró verulega úr möguleikum íslenska landsliðsins, alltént í bili, á sæti í undanúrslitum Evrópumótsins. „Við verðum að bíða kvöldsins og sjá hvað jafnteflið þýðir en ég óttast að það hafi afleiðingar,“ sagði Snorri Steinn enn fremur.
Sama hverju var breytt
„Varnarleikurinn fór með leikinn af okkar hálfu. Það var alveg sama hvað við reyndum að breyta honum, ekkert tókst. Þeir toguðu okkur sundur og saman, fyrir vikið vorum við í eltingaleik frá upphafi og í tómum vandræðum,“ sagði Snorri Steinn sem sagðist ekki hafa sérstaka skýringu af hverju varnarleikurinn hafi verið jafn slakur og raun bar vitni, hvað sem reynt var. Ekkert í leik Sviss hafi komið á óvart.
Óðagot og tapaðir boltar
„Þegar við náðum aðeins upp baráttu í vörninni þá var óðagot á okkur sókninni og boltinn tapaðist á klaufalegan hátt,“ sagði Snorri Steinn.
Íslenska landsliðið átti síðustu sókn leiksins, síðustu 40 sekúndurnar, og tók m.a. leikhlé þegar hálf mínúta var eftir. Snorri Steinn sagðist ekki hafa skýr svör við því af hverju ekki hafi tekist að nýta síðustu sóknina.

