- Auglýsing -
- Aðalsteinn Ernir Bergþórsson er handknattleiksmaður ársins 2022 hjá Þór Akureyri. Hann hlaut viðurkenningu á hófi í félagsheimilinu Hamri í gær þegar íþróttamenn félagsins voru heiðraðir. Aðalsteinn Ernir leikur með Þórsliðinu í Grill 66-deild karla.
- Kostadin Petrov liðsfélagi Aðalsteins Ernis hjá Þór lék með landsliði Norður Makedóníu gegn króatíska landsliðinu í vináttuleik í Porec í Króatíu í gærkvöld. Petrov skoraði ekki mark í leiknum sem Norður Makedóníumenn töpuðu með sex marka mun, 40:34, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 22:19
- Olísdeildarlið Harðar á Ísafirði staðfesti í gær að Rússinn Alexander Tatarintsev hafi samið við liðið. Um miðjan desember var sagt frá komu hans í hlaðvarpsþættinum Handboltinn okkar og daginn eftir á handbolta.is þar sem vitnað var til Handboltans okkar. Tatarintsev er 32 ára gamall og 210 sentímetrar á hæð. Tatarintsev er skráður með 10 landsleiki fyrir Rússland. Þann fyrsta árið 2013. Um leið og atvinnuleyfi liggur fyrir ætti leikheimild að fást hjá HSÍ. Hörður fær ÍBV í heimsókn á Torfnes 28. janúar í Olísdeild karla.
- Carlos Martin Santos þjálfari Harðar er á Spáni þessa dagana þar sem hann er að ljúka EHF Master Coach námi sem er æðsta gráða þjálfaramenntunnar hjá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF.
- Joan Cañellas lærisveinn Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Kadetten Schaffhausen í Sviss og liðsmaður spænska landsliðsins meiddist á kálfa í vináttuleik Spánar og Rúmeníu á Alicante í fyrradag. Talið er líklegt að meiðslin setji strik í reikning þátttöku hans með spænska landsliðinu á heimsmeistaramótinu sem framundan er.
- Danska landsliðskonan Trine Østergaard kveður þýska meistaraliðið Bietigheim í sumar og gengur til liðs við CSM Búkarest. Østergaard var í danska landsliðinu sem hafnaði í öðru sæti á EM í nóvember.
- Auglýsing -