- Auglýsing -
- Aldís Ásta Heimisdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor þegar Skara HF vann Skövde, 28:23, á æfingamóti, Annliz cup, í Skövde á föstudagskvöld. Skara skoraði fimm af síðustu sex mörkum leiksins og innsiglaði þar með sigur.
- Áður hafði Skara HF, sem er sænskur meistari, tapaði fyrir Viborg í fyrstu umferð mótsins eins og handbolti.is hefur áður sagt frá.
- Aldís, Lena og samherjar mæta Elínu Klöru Þorkelsdóttur og hennar nýju liðsfélögum í IK Sävehof í viðureign um þriðja sæti mótsins í hádeginu í dag.
- Elín Klara leikur með númerið 9 á bakinu hjá sænska liðinu en ekki 2 eins og hún gerði hjá Haukum. Tvisturinn er upptekin hjá félaginu.
- Elín Klara og liðsfélagar í IK Sävehöf töpuðu fyrir danska liðinu HØJ Elite, 31:26, á fimmtudagskvöld. Í gær vann Sävehöf sænska liðið VästeråsIrsta HF, 29:28. Útilokað virðist að fá annað en úrslit leikja mótsins nema úr leikjum Skara HF sem segir frá öllum kappleikjum á heimasíðu sinni með markaskorurum.
- Dagur Gautason og samherjar hans í norska úrvalsdeildarliðinu ØIF Arendal taka þátt í æfingamótinu í Skövde. Þeir unnu VästeråsIrsta HF, 35:26, í gær. Á föstudginn tapaði Arendal fyrir nýstirnum dönsku úrvalsdeildarinnar, HØJ Elite, 33:26.
- Í dag mætir ØIF Arendal danska B deildarliðinu Lemvig-Thyborøn Håndbold sem Jón Ísak Halldórsson leikur með.
- Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk og Elliði Snær Viðarsson eitt þegar lið þeirra Gummersbach tapaði fyrir Hannover-Burgdorf á æfingamóti, Heidi Cup, í gær, 30:28. Gummersbach mætir Kolstad á mótinu í dag.
- Stiven Tobar Valencia verður áfram hjá portúgalska handknattleiksliðinu Benfica næsta árið. Kemur það reyndar fáum á óvart því í janúar og í mars sagði Stiven við handbolta.is að hann reiknaði með að halda áfram. Forsvarsmenn Benfica tóku loks á sig rögg á föstudagsmorgun og tilkynntu að landsliðsmaðurinn hafi skrifað undir nýjan samning.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, lét til sína taka fyrir helgina þegar Skanderborg AGF vann GOG í æfingaleik. Donni skoraði 10 mörk og var markahæstur hjá Skanderborg í 10 marka sigri, 35:25. Fyrsti opinberi kappleikur Donna og félaga verður gegn Tønder í dönsku bikarkeppninni 22. ágúst.
- Auglýsing -