- Auglýsing -
- Alfreð Gíslason og Guðjón Valur Sigurðsson verða á meðal margra stórstjarna úr handknattleiknum sem taka þátt í kveðjuleik Patrick Wiencek leikmanns THW Kiel sem fram fer í næsta mánuði í Kiel. Wiencek lék um árabil undir stjórn Alfreðs og Guðjón Valur var samherji Wiencek hjá Kiel frá 2014.
- Sænski handknattleiksmaðurinn Lukas Sandell hefur náð samkomulagi við ungverska meistaraliðið One Veszprém um að samningi hans verði slitið. Sandell hafði verið í herbúðum Veszprém í tvö ár.
- Ekkert hefur verið gefið upp hvert hugur hins 28 ára gamla Svía stefnir. Óstaðfestar fregnir herma að Sandell fari til Þýskalands og gangi til liðs við Rhein-Neckar Löwen. Félagið leitar að manni í stað Króatans Ivan Martinovic sem virðist vera á leið frá félaginu og til ungverska meistaraliðsins sem áður er nefnt.
- Króatinn Ivan Slišković hefur ákveðið að vera áfram hjá gríska meistaraliðinu Olympiakos. Slišković kom til félagsins frá Stuttgart fyrir tveimur árum og hefur verið maðurinn á bak við tvo meistaratitla Olympiakos í röð. Slišković og félagar máttu játa sig sigraða gegn Val í úrslitum Evrópubikarkeppninnar vorið 2024.
- Þrálát og erfið axlarmeiðsli hafa neytt ungversku handknattleikskonuna Rita Lakatos til þess að binda enda á handknattleiksferilinn, aðeins 25 gömul. Lakatos þótti mikið efni og var t.d. aðeins 16 ára gömul komin í æfingahóp ungverska stórliðsins Györi. Hún var burðarás í ungverska liðinu sem varð heimsmeistari 18 ára og yngri 2018. Sama ár lék hún með A-landsliðinu á Evrópumótinu og var aftur með á EM tveimur árum síðar í Danmörku.
- Lakatos var á síðasta tímabili með BSV Sachsen Zwickau en náði aldrei að sýna sitt rétt andlit vegna meiðslanna. Hún verður áfram hjá þýska félaginu þótt hún hætti að leika.
- Auglýsing -