- Auglýsing -
- Andrea Jacobsen skoraði þrjú mörk í þrettánda sigurleik liðs hennar, EH Aaborg, í næst efstu deild danska handboltans í gærkvöld. EH Aalborg vann þá Søndermarkens IK, 26:20, á útivelli. EH Aalborg er efst í deildinni með 26 stig eftir 14 leiki. Bjerringbro og Holstebro eru næst á eftir með 22 stig hvort eftir 13 leiki.
- Andreas Palicka markvörður Svía segist hafa verið heppinn að hafa ekki fengið rautt spjald fyrir að ganga harkalega fram við Elliða Snæ Viðarsson í tilraunum sínum við að ná boltanum af honum snemma í síðari hálfleik í viðureign Íslands og Svíþjóðar í Gautaborg í gær. Dómararnir hefðu hugsanlega getað vísað sér af leikvelli með rautt spjald í stað þess að láta tvær mínútur nægja. Palicka átti stórleik í marki Svía í síðari hálfleik.
- Stig Nygård fjölmiðlamaður hjá TV2 í Noregi hefur árum saman sett saman lista ár hvert yfir 50 bestu handknattleiksmenn hvers árs. Hann birti nýjasta lista sinn í gærmorgun og á honum er að finna nafn fjögurra íslenskra landsliðsmanna. Ómar Ingi Magnússon er í fjórða sæti listans. Gísli Þorgeir Kristjánsson situr í 14. sæti, Aron Pálmarsson í 35. sæti og Bjarki Már Elísson er í 42. sæti. Nikola Karabatic er í 50. sæti. Efstur á listanum góða hjá Nygård er Frakkinn Dika Mem. Annar er Svíinn Jim Gottfridsson. Nafn Spánverjans Alex Dujshebaev vermir þriðja sætið.
- Þýska handknattleikskonan Alina Grijseels hefur samið við franska meistaraliðið Metz og kveður þar með Borussia Dortmund í sumar eftir langa veru. Landsliðskonan þýska samdi við Metz til tveggja ára.
- Auglýsing -