- Auglýsing -
- Anna Katrín Stefánsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við handknattleiksdeild Gróttu. Anna Katrín er 24 ára gamall hornamaður sem lék sína fyrstu leiki fyrir Gróttu í sex ár á síðasta vori eftir að hafa glímt við afleiðingar höfuðáverka. Hún hefur þegar leikið átta leiki með Gróttu í Grill 66-deildinni í vetur og skorað 15 mörk.
- Líggjas Joensen fyrsti formaður færeyska handknattleikssambandsins lést 27. desember 81 árs að aldri. Joensen var aðal hvatamaður þess að Færeyingar voru gestgjafar C-heimsmeistaramótsins árið 1980 og var óþreytandi í margvíslegu starfi í færeysku íþróttalífi um áratugaskeið. Hann var m.a. formaður íþróttasambands Færeyja frá 1971 til 1976. Joensen var ötull talsmaður þess að Færeyingar ættu aðild að alþjóðlegum íþróttasamböndum og vann m.a. ötullega að inngöngu færeyska handknattleikssambandsins í Alþjóða handknattleikssambandið snemma á áttunda áratugnum.
- Sænska handknattleikssambandið hefur ákveðið að heiðra minningu Bengt Johansson fyrrverandi landsliðsþjálfara með því að nefna meistarabikarinn í karla- og kvennaflokki eftir honum frá og með keppnistímabilinu 2024. Johansson lést á síðasta ári, 79 ára gamall. Hann var þjálfari hins goðsagnakennda sænska karlalandslið á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og starfaði sem landsliðsþjálfari fram á fyrstu ár þessarar aldar. M.a. var sænska landsliðið Evrópumeistari á heimavelli 2002 undir stjórn Johansson. Einnig varð sænska landsliðið heims- og Evrópumeistari undir stjórn Johansson og var liðið nefnt „Bengan Boys.”
- Sex þúsund áhorfendur troðfylltu Boris Trajkovski-íþróttahöllina í Skopje í Norður Makedóníu í gærkvöld þar sem karlalandsliðið í handknattleik mætti liði eldri kappa í góðgerðaleik. Meðal þátttakenda í leiknum var Kostadin Petrov línumaður Þórs Akureyri en hann er í A-landsliði Norður Makedóníu sem býr sig undir átökin á HM sem hefst síðar í þessum mánuði. Endanlegur keppnishópur landsliðs Norður Makedóníu hefur ekki verið valinn en Petrov þykir líklegur til þess að vera með í honum.
- Hinn þrautreyndi spænski þjálfari Manuel Cadenas hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Ademar León. Cadenas hefur þjálfað lið félagsins frá 2019 en en liðið er í fjórða sæti í spænsku 1. deildarinnar um þessar mundir. Cadenas er einn þekktasti handknattleiksþjálfari Spánar. Hann er orðinn 67 ára gamall og hefur m.a. þrisvar verið ráðinn landsliðsþjálfari karlalandsliðs Spánar auk þess að þjálfa m.a. hjá Barcelona, Granolles, Teka Cantabia, Valladolid auk Ademar León á tíunda áratug síðustu aldar þegar liðið var eitt það allra fremsta í Evrópu. Cadenas var einnig landsliðsþjálfari Argentínu frá 2017 til 2021.
- Kyllian Villeminot heltist í gær úr lestinni í undirbúningi franska landsliðsins í handknattleik fyrir heimsmeistaramótið. Hann er meiddur á hné og verður ekki með á HM. Villeminot bætist þar með á meiðslalista franska landsliðsins þar sem fyrir eru Karl Konan, Timothey N’Guessan og Aymeric Minne.
- Auglýsing -