- Bræðurnir Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir kunnu vel við sig á gamla heimavelli föður þeirra, Óskars Bjarna Óskarssonar, í Haslum á sunnudaginn þegar þeir komu þangað með liði sínu Kolstad. Benedikt Gunnar var markahæstur hjá Kolstad með átta mörk og Arnór Snær skoraði fjögur í 10 marka sigri Kolstad, 42:32. Arnór Snær lét ekki þar við sitja heldur átti hann 10 stoðsendingar.
- Sveinn Jóhannsson skoraði fimm mörk fyrir Kolstad og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk. Kolstad er í öðru sæti í úrvalsdeildarinnar með 22 stig í 12 leikjum. Elverum er stigi ofar.
- Stöðuna í norsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Ísak Steinsson varði átta skot, 32%, þann tíma sem hann stóð í mark Drammen í fimm marka sigri á Bækkelaget, 33:28, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Viktor Petersen Norberg skoraði þrjú mörk fyrir Drammen sem er í fimmta sæti með 13 stig í 12 leikjum.
- Sigurjón Guðmundsson varði 13 skot, 30%, í marki Charlottenlund þegar liðið vann Sandefjord á heimavelli í toppbaráttu næst efstu deildar á sunnudaginn, 34:32. Sigurjón stóð í marki liðsins frá upphafi til enda leiks. Charlottenlund er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig í 10 leikjum, fjórum stigum á eftir Viking TIF sem situr í efsta sæti. Sandefjord situr í öðru sæti með 16 stig úr 11 leikjum.
- Elna Ólöf Guðjónsdóttir skoraði eitt mark fyrir Strindheim í 11 marka sigri á Fjellhammer2 í 2. deild, fjórða riðli, 26:15, á sunnudaginn. Strindheim er í sjötta sæti 2. deildar fjórða riðli.
- Auglýsing -