- Auglýsing -
- Bergischer HC, liðið sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar ásamt öðrum, vann afar mikilvægan sigur í toppbaráttu 2. deildar þýska handknattleiksins í gær á Tusem Essen, 24:23. Bergischer HC situr þar með áfram í efsta sæti deildarinnar með 26 stig eftir 18 leiki. Arnór Viðarsson og Tjörvi Týr Gíslason léku með Bergischer HC en tókst ekki að skora. Þeim síðarnefnda var vikið einu sinni af leikvelli.
- Daníel Þór Ingason og félagar í HBW Balingen-Weilstetten eru aðeins einu stigi á eftir Bergischer HC. Balingen vann TuS N-Lübbecke á útivelli í gær, 30:28. Daníel Þór var í leikmannahópi HBW Balingen-Weilstetten sem hefur 25 stig eins og GWD Minden í öðru til þriðja sæti.
- Elías Már Halldórsson þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Fredrikstad Bkl. fagnaði í gær öðrum sigri liðsins í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Fredrikstad Bkl vann Super Amara Bera Bera, 33:24, á heimavelli í fjórðu umferð D-riðils.
- Fredrikstad Bkl, Super Amara Bera Bera og HSG Bensheim eru jöfn að stigum með fjögur stig hvert eftir fjórar umferðir en Paris 92 rekur lestina án stiga. Þrjú fyrrnefndu liðin eru þar með í harðri keppni um sæti í átta liða úrslitum en tvö lið fara áfram úr hverjum riðli Evrópudeildarinnar sem leikin er í fjórum fjögurra liða riðlum. Tvær umferðir eru eftir af þessum hluta keppninnar.
- Fredrikstad Bkl sækir HSG Bensheim um næstu helgi og fær síðan Paris 92 í heimsókn þegar síðasta umferðin fer fram 22. febrúar.
- Auglýsing -