- Auglýsing -
- Ásgeir Snær Vignisson skoraði þrjú mörk fyrir Helsingborg þegar liðið steinlá á heimavelli fyrir Alingsås í riðlakeppni fyrsta stigs sænsku bikarkeppninnar í gærkvöld, 36:24. Þetta var annar leikur Ásgeirs Snæs og nýrra samherja hans í keppninni. Þeir unnu Vinslövs HK, 31:27, á dögunum og hafa þar með tvö stig að loknum tveimur umferðum í 5. riðli bikarkeppninnar. Ásgeir Snær, sem kom til liðs við Helsingborg í sumar frá ÍBV, skoraði tvö mörk í leiknum við Vinslövs í síðustu viku.
- Noah Bardou, tvítugur Frakki, hefur gengið til liðs við nýliða Harðar í Olísdeild karla. Félagið sagði frá komu hans í gærkvöld. Bardou var síðast í herbúðum US Ivry. Bardou lék þrjá leiki með Ivry í næstefstu deildinni í Frakklandi á síðasta vetri og 10 leiki með Ivry II, sennilega ungmennalið félagsins.
- Einnig sagði Hörður frá því í gær að spænski línumaðurinn Victor Peinado Iturrino hafi samið við félagið. Er það í annað sinn á nokkrum vikum sem sagt er frá komu hans til félagsins. Hörður mætir ÍBV á Ragnarsmótinu á Selfossi í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18.30.
- Norska landsliðskonan Henny Reistad leikur ekki með danska liðinu Esbjerg á fyrstu viku keppnistímabilsins. Hún er fingurbrotin. Esbjerg mætir meisturum Odense Håndbold í næstu viku í meistarakeppninni. Deildarkeppni karla og kvenna fer af stað um næstu mánaðamót.
- Þýski landsliðsmaðurinn Lukas Zerbe hefur samið við Kiel. Hann kemur til félagsins sumarið 2024 þegar samningurinn við Lemgo rennur sitt skeið á enda. Zerbe leikur í hægra horni. Hann er bróðursonur Volker Zerbe, örvhentu skyttunnar öflugu sem lék árum saman með Lemgo og þýska landsliðinu.
- Túníski landsliðsmaðurinn Mohamed Soussi vonast til þess að koma handkattleiksferlinum á réttan kjöl á nýjan leik með því að ganga til liðs við Eurofarm Pelister í Norður Makedóníu. Soussi lék eitt sinn með Montpellier en var í herbúðum Tremblay á síðasta tímabili og náði sér lítt á strik. Hann skoraði m.a. aðeins 10 mörk í 18 leikjum.
- Fríða Margrét Wíum hefur skrifað undir tveggja ára samning við Fjölni/Fylki og leikur með liðinu í Grill66-deild kvenna á næstu leiktíð. Fríða er hornamaður en hefur verið töluvert frá keppni vegna meiðsla, segir í tilkynningu frá Fjölni/Fylki í gær.
- Auglýsing -