- Auglýsing -
- Bjarki Már Elísson og samherjar í Telekom Veszprém innsigluðu deildarmeistaratitilinn í Ungverjalandi annað ári í röð í gær með níu marka sigri á helsta keppinautinum, Pick Szeged, 36:27, á heimavelli. Bjarki Már skoraði fjögur mörk í leiknum. Telekom Veszprém hefur unnið allar 24 viðureignir sínar í deildinni í vetur og er átta stigum á undan Pick Szeged sem er í öðru sæti. Telekom Veszprém á tvo leiki eftir en Szeged þrjá. Að deildarkeppninni lokinni tekur við úrslitakeppnin um meistaratitilinn
- Alpla Hard, liðið sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, tapaði fyrir Handball Tirol, 33:31, í undanúrslitum austurrísku bikarkeppninnar í handknattleik karla í gær. West Wien vann HSG Graz í hinni viðureign undanúrslitanna, 28:25. Leikið verður til úrslita í dag.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendingar þegar Coburg vann Tusem Essen, 31:27, á útivelli í 2. deild þýska handknattleiksins í Essen í gær. Coburg er í sjöunda sæti deildarinnar þegar liðið á fimm leiki eftir.
- Örn Vésteinsson Östenberg leikur ekki fleiri leiki með Lübeck Schwartau í þýsku 2. deildinni á keppnistímabilinu. Hann fór fyrir nokkru í veikindaleyfi. Örn opnaði sig í samtali við þýska fjölmiðla í vikunni vegna andlegra veikinda sem hann stríðir við. Forvígismenn Lübeck Schwartau standa þétt við bakið á Erni sem gekk til liðs við félagið á síðasta sumri.
- Andrea Jacobsen og félagar í Silkeborg-Voel unnu SönderjysksE, 31:28, á útivelli í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Andrea skoraði ekki í leiknum. Þetta var fyrsti sigur Silkeborg-Voel í þremur viðureignum í riðli eitt í keppni liðanna sem höfnuðu í efri hluta deildarkeppninnar. Silkeborg-Voel á þrjá leiki eftir. Stöðuna í riðlunum er að finna hér.
- Grétar Ari Guðjónsson varði 2 skot á þeim rúmu 19 mínútum sem hann var í marki Sélestat í gærkvöld þegar liðið tapað fyrir Besançon, 29:24, í næst efstu deild franska handknattleiksins í gær. Sélestat er í fimmta sæti deildarinnar með 30 stig þegar fimm umferðir eru óleiknar.
- Auglýsing -