- Auglýsing -
- Blær Hinriksson skoraði fjögur mörk í síðasta æfingaleik þýska liðsins DHfK Leipzig í gær gegn tékkneska liðinu HCB Karviná. Leipzig vann leikinn, 36:30, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik. Keppni í þýsku 1. deildinni hefst á miðvikudagskvöldið. Blær og félagar eiga ekki leik fyrr á laugardaginn á útivelli gegn Eisenach.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði fjögur mörk í eins marks sigri Skanderborg AGF á TM Tønder, 31:30, í dönsku bikarkeppninni í gær. Leikið var í Klosterhallen, heimavelli TM Tønder. Bikarkeppnin í Danmörku hófst síðla síðasta vetrar og nær yfir á nýtt tímabil er að hefjast.
- Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í Barcelona leika til úrslita í meistarakeppni Katalóníu á þriðjudaginn eftir sigur á OAR Gràcia, 50:29, í undanúrslitum á föstudagskvöld. Margir af yngri leikmönnum Barcelona léku stærstan hluta leiksins. Djordje Cikusa skoraði 16 mörk. Eftir því sem næst verður komist samkvæmt fregnum Mundodeportivo var Viktor Gísli allan leiktímann í marki Barcelona. Andstæðingur Barcelona í úrslitaleiknum verður eins og síðustu ár, Fraikin Granollers.
- Guðmundur Bragi Ástþórsson og Ísak Gústafsson fögnuðu sigri með TMS Ringsted í gær á Nordsjælland, 33:30, í síðasta æfingaleik liðsins áður flautað verður til leiks í dönsku úrvalsdeildinni í næstu viku. Ekki er að finna meiri tölfræði úr leiknum er úrslitin og stöðuna í hálfleik. Leikurinn fór fram í Holbæks Sportsby að viðstöddum 350 áhorfendum.

- Úlfar Páll Monsi Þórðarson og nýir liðsfélagar hans í RK Alkaloid frá Norður Makedóníu unnu æfingamót í Slóveníu en mótinu lauk í gær. Að undanförnu hefur RK Alkaloid leikið sjö æfingaleiki og unnið þá alla eftir því sem fram kemur á samfélagsmiðla síðum félagsins. Meðal andstæðinga RK Alkaloid fyrrgreindu móti var meistaraliðið í Slóveníu, RK Slovan Ljubljana.
- Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði eitt mark fyrir nýliða norsku úrvalsdeildarinnar, Sandefjord, í 10 marka tapi fyrir ØIF Arendal í æfingaleik. Phil Döhler fyrrverandi markvörður FH, sem gekk til liðs við Sandefjord í sumar eins og Gauti, var með 34% hlutfallsmarkvörslu samkvæmt frétt á heimasíðu Sandefjord.
- Dagur Gautason lék með ØIF Arendal í leiknum við Sandefjord en því miður er fátt annað vitað nema að hann skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -