- Auglýsing -
- Dagbjört Ýr Ólafsdóttir hefur gengið til liðs við ÍBV frá ÍR. Dagbjört Ýr er 19 ára gömul og leikur í vinstra horni. Hún hefur átt sæti í yngri landsliðunum.
- Danska handknattleiksliðið Aalborg Håndbold leita dyrum og dyngjum að örvhentri skyttu í stað Lukas Sandell sem flytur til Veszprém í sumar. Fram til þessa hefur ekki gengið sem skyldi þótt menn hafi verið með allar klær úti. Auk þess hefur félagið sótt um að fá boðskort í Meistaradeild Evrópu annað árið í röð eftir að hafa orðið næst á eftir GOG í kapphlaupi um danska meistaratitilinn.
- Hinn sterki leikmaður Þýskalandsmeistara THW Kiel, Hendrik Pekeler, leikur ekki með liðinu fyrstu vikurnar á næsta keppnistímabili. Hann er á leið í aðgerð þar sem beinflís sem nuddast utan í annarri hásininni verður fjarlægð.
- Morten Stig Christensen formaður danska handknattleikssambandsins er óánægður með að dönsk félagslið nýti sér ekki tækifærið sem þeim býðst til þess að taka þátt í Evrópumótum félagsliða. Kvennalið Viborg er á meðal félaga sem ætlar ekki að taka þátt í Evrópudeildinni á næsta tímabili. Stjórnendur Viborg segja félagið einfaldlega ekki hafa ráð á því að taka þátt.
- Anders Friis þjálfari grænlenska kvennalandsliðsins í handknattleik segir mikla eftirvæntingu ríkja meðal handknattleiksáhugafólks á Grænlandi fyrir þátttöku landsliðsins á HM kvenna síðar á þessu ári. „Það væri gaman ef okkur tækist að stríða einu eða tveimur liðum í lokakeppninni,“ sagði Friis í samtali við DR.
- Sænski markvörðurinn Mikael Aggefors hefur ákveðið að leggja handknattleiksskóna á hilluna 38 ára gamall. Hann hefur síðustu sjö ár leikið með Aalborg Håndbold. Eftir síðasta leik sinn um síðustu helgi var Aggefors tekinn inn í heiðurshöll félagsins. Aggefors lék alls 310 leiki fyrir félagið og varð m.a. fjórum sinnum danskur meistari og tvisvar bikarmeistari