- Auglýsing -
- Dagur Gautason fór hamförum og skoraði 17 mörk þegar lið hans, ØIF Arendal, vann Kragerø, 49:30, í fyrstu umferð norsku bikarkeppninnar í handknattleik í gær.
- Fredrikstad Bkl., sem Elías Már Halldórsson þjálfar vann viðureign sína við Halden á útivelli, 32:23, í norsku bikarkeppninni í kvennaflokki í gær.
- Bjarki Már Elísson skoraði í tvígang fyrir Veszprém Handball Club þegar liðið vann HC Dukla Prag, 40:29, í æfingaleik í gær. Þetta var fyrsti heimaleikur ungversku meistaranna á undirbúningstímabilinu eftir að Spánverjinn Xavi Pascual tók við þjálfun í sumar. Bjarki Már var í byrjunarliðinu.
- Nikolaj Øris fyrrverandi landsliðsmaður Dana og samherji Guðmundar Braga Ástþórssonar hjá danska úrvalsdeildarliðinu Bjerringbro/Silkeborg sleit krossband í æfingaleik við nýliða þýsku 1. deildarinnar, Potsdam, á dögunum. Øris verður þar af leiðandi ekki með liðinu á komandi leiktíð.
- Bjerringbro/Silkeborg tapaði fyrrgreindum leik við Potsdam, 31:28. Guðmundur Bragi skoraði ekki mark í leiknum.
- Veselin Vujovic hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Katar í handknattleik karla. Þetta er hans fjórða þjálfarastarf síðasta árið. Vujovic er mikill skaphundur og rekst illa í sveit. Hann var í vor dæmdur í keppnisbann fyrir að missa stjórn á sér við þjálfun hjá króatísku félagsliði hvar hann hljóp í skarðið í nokkrar vikur.
- Vujovic var á níunda áratug síðustu aldar einn allra fremsti handknattleiksmaður heims og lék m.a. með júgóslavneska landsliðinu og hinum goðsagnakennda félagsliði Metaloplastika og síðar með Barcelona.
- Portúgalinn Gilberto Duarte er nýjasta viðbótin í leikmannahópi gríska liðsins AEK en forráðamenn félagsins hafa rakað til sín leikmönnum í sumar, eins og handbolti.is hefur áður sagt frá. Duarte hefur víða komið við, m.a. hjá Barcelona, Porto, Wisla Plock og PAUC, svo dæmi séu tekin.
- Markvörður ungversku meistaranna Veszprém, Kristóf Palasics, hefur verið lánaður til Benfica í Portúgal. Hann verður þar með samherji Stivens Tobar Valencia á næstu leiktíð.
- Auglýsing -