- Auglýsing -
- Dagur Gautason lék annan hálfleikinn með Montpellier í sjö marka sigri á heimavelli á Chartres, 37:30, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Dagur skoraði fjögur mörk í fimm skotum. Montpellier heldur áfram að dansa á milli annars og þriðja sætis deildarinnar.
- Grétar Ari Guðjónsson markvörður varði sex skot, 32%, meðan hann stóð vaktina í marki Ivry í eins marks tapi fyrir Toulouse, 29:28, á heimavelli í gær í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Grétar Ari var annan hálfleikinn í markinu. Ivry er sem fyrr í neðsta sæti með níu stig þegar liðið á fimm leiki eftir. Fjögur stig eru á milli Ivry og Cesson Rennes sem er næst neðst. Fimm stig eru í Créteil sem er í þriðja neðsta sæti. Tvö lið falla úr deildinni.
- Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach fagnaði sigri með liði sínu í gærkvöld á heimavelli gegn Potsdam, 31:27. Gummersbach situr áfram í níunda sæti deildarinnar með 30 stig að loknum 26 leikjum, stigi á eftir Lemgo sem tapaði fyrir Hannover-Burgdorf í gær, 30:29.
- Teitur Örn Einarsson var í leikmannahópi Gummersbach í leiknum en skoraði ekki mark. Elliði Snær Viðarsson er áfram úr leik vegna meiðsla.
- Heiðmar Felixson aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf var að vanda með liðinu í gærkvöld í sigrinum á Lemgo, 30:29. Hannover-Burgdorf er í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar með 41 stig að loknum 27 leikjum. Füchse Berlin er efst með 44 stig. Melsungen er þar á eftir með 42 stig en á leik til góða við Erlangen á útivelli í kvöld.
- Stiven Tobar Valencia var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir Benfica í gær þegar liðið vann Marítimo Madeira Andebol, 29:26, í þriðju umferð úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik karla í gær. Leikurinn fór fram á Madeira. Benfica er í þriðja sæti af fjórum liðum í úrslitakeppni efstu liðanna.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -