- Auglýsing -
- Dagur Sigurðsson og leikmenn hans í króatíska landsliðinu töpuðu í gær fyrir Ólympíu– og Evrópumeisturum Frakklands í vináttuleik í handknattleik karla, 31:26. Leikið var í Chartres í Frakklandi. Bæði lið voru án sterkra leikmanna. Domagoj Duvnjak varð eftir heima í Króatíu vegna meiðsla og þá hefur Dika Mem verið fjarri æfingum með franska landsliðinu vegna meiðsla.
- Melvyn Richardson, Ludovig Fabregas og Hugo Descat skoruðu sex mörk hver fyrir franska landsliðið og voru markahæstir Gamla brýnið Vincent Gerard var vel á verði í franska markinu.
- Mario Šoštarić skoraði átta sinnum fyrir króatíska landsliðið. Hann var markahæstur. Ivan Martinović var næstur með fjögur mörk. Þetta var síðasti leikur Króata áður en þeir fara til Parísar á Ólympíuleikana sem verða settir eftir níu daga.
- Hlynur Leifsson verður eftirlitsmaður á viðureign Noregs og Danmerkur í síðustu umferð riðils tvö í átta liða úrslitum Evrópumóts 20 ára landsliða karla í handknattleik í Celje í dag. Mikið verður undir í leiknum. Sigurliðið kemst í undanúrslit en tapliðið leikur um sæti fimm til átta á morgun. Staðan er afar jöfn í riðlinum, hvert liðanna fjögurra hefur tvö stig. Svíþjóð og Þýskalandi eru hin tvö liðin í riðlinum.
- Hlynur mun svo sannarlega hafa nóg að gera því hann verður einnig með eftirlit á viðureign Svíþjóðar og Þýskalands síðar í kvöld.
- Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma viðureign Svartfjallalands og Grikklands um sæti 17 til 24 í Tri Lilije-keppnishöllinni í Lasko í kvöld á Evrópumóti 20 ára landsliða karla í handknattleik. Þetta verður sjötti leikurinn sem þeir dæma á mótinu.
- Tomas Barysas og Povilas Petrusis frá Litáen dæma leik Íslands og Spánar í 3. og síðustu umferð átta liða úrslita Evrópumóts 20 ára landsliða sem fram fer í Dvorana Zlatorog í Celje og hefst klukkan 12.20.
- Auglýsing -