- Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona í handknattleik skoraði sex mörk fyrir Volda þegar liðið tapaði fyrir Pors, 27:26, í næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Volda var með tveggja marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki, 19:17. Liðunum gekk verr að skora í síðari hálfleik.
- Þetta var fyrsti tapleikur Volda í deildinni á leiktíðinni. Liðið er í þriðja sæti með 12 stig að loknum sjö leikjum. Birta Rún Grétarsdóttir og liðsfélagar í Fjellhammer sitja í efsta sæti með 14 stig.
- Birta Rún lék með Fjellhammer í sigri á Fyllingen, 25:23, á heimavelli. Hún skoraði ekki en aðallega var Birta Rún með í varnarleiknum.
- Vilborg Pétursdóttir skoraði tvö mörk þegar AIK vann IFK Örebro, 30:25, í Allsvenskan, næst efstu deild sænska handknattleiksins í gær en leikið var á heimavelli Örebro-liðsins. AIK er þar með komið á sigurbraut á nýjan leik. Liðið færðist upp í sjöunda sæti deildarinnar af 12 með sjö stig að loknum sjö leikjum. Tyresö er efst með 12 stig.
- Haukur Þrastarson kom lítið við sögu þegar Dinamo Búkarest vann CSM Vaslui, 46:19, á útivelli í níundu umferð rúmensku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Yfirburðir Dinamo liðsins voru miklir og m.a. var staðan 20:6 að loknum fyrri hálfleik. Dinamo er efst í deildinni með fullt hús stiga eftir níu umferðir. Potaissa Turda er í öðru sæti og Minaur Baia Mare situr í þriðja sæti.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Alpla Hard í gær þegar liðið vann West Wien, 38:34. Leikið var í Vínarborg og hafði Hard-liðið eins marks forskot, 17:16. Alpla Hard er í öðru sæti deildarinnar með 14 stig eftir níu leiki, er stigi á eftir Krems sem trónir á toppnum. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard.
- Auglýsing -