- Auglýsing -
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði þrjú mörk þegar lið hennar, Volda, tapaði fyrir Ålgård, 32:28, í næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Leikurinn fór fram í Ålgårdhallen. Volda er áfram í öðru sæti deildarinnar og í umspilssæti ásamt Flint Tønsberg sem er stigi á eftir. Haslum hefur örugga forystu í deildinni.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður íslenska landsliðsins og stöllur hennar í danska liðinu EH Aalborg töpuðu í gær fyrir AGF, 20:19, í næst síðustu umferð næstu efstu deildar danska handknattleiksins. Tapið hefur engin áhrif á þá staðreynd að Elín Jóna og félagar hafa yfirburðastöðu í efsta sæti deildarinnar. EH Aalborg hefur fyrir löngu tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Ein umferð er eftir af deildinni og forskot EH Aalborg er sjö stiga forskot á Roskilde Håndbold sem situr í öðru sæti.
- Bjarki Finnbogason og félagar í Anderstorps SK unnu Vinslövs HK, 33:31, í Allsvenskan, næstu efstu deild sænska handknattleiksins í gær. Bjarki skoraði ekki mark í leiknum. Anderstorps SK er í næst neðsta sæti fyrir síðustu umferðina sem fram fer eftir viku, aðeins stigi frá umspilssæti. Tvö lið falla úr deildinni en þau tvö næstu fyrir ofan taka sæti í umspili um að halda sæti í deildinni.
- Danmörk vann Sviss í vináttuleik í handknattleik karla, 30:25, í Aarhus í gær. Danir voru átta mörkum yfir í hálfleik, 17:9, eftir að Emil Nielsens markvörður hafði leikið leikmenn landsliðs Sviss afar grátt með frábærri markvörslu. Nikolaj Jacobsen gaf mörgum þekktari leikmönnum frí frá æfingum og leiknum. Það kom ekki í veg fyrir öruggan danskan sigur enda eiga Danir afar breiðan hóp öflugra handknattleiksmanna um þessar mundir.
- Andy Schmid stýrði landsliði Sviss í fyrsta sinn í gær eftir að hann tók við starfi landsliðsþjálfara á dögunum. Schmid lék í fimm ár undir stjórn Nikolaj Jacobsen hjá Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.
- Evrópumeistarar Frakka unnu öruggan sigur á Egyptum í vináttuleik í Frakklandi í gær, 39:31. Á sama móti vann argentínska landsliðið það japanska, 35:23. Einnig áttust við landslið Svartfellinga og Georgíu í Podgorica. Svartfellingar unnu örugglega, 29:19.
- Auglýsing -