- Auglýsing -
- Dana Björg Guðmundsdóttir var næst markahæst hjá Volda í gær þegar liðið gerði jafntefli, 30:30, í heimsókn til Trondheim Topphåndball í næst efstu deild norska handboltans. Leikið var í Husebyhallen í Þrándheimi. Dana Björg skoraði átta mörk úr 11 skotum. Volda er í þriðja sæti deildarinnar með níu stig eftir sex leiki. Aker er efst með 12 stig.
- Katla María Magnúsdóttir skoraði þrjú mörk, öll úr vítaköstum, þegar Holstebro vann Rødovre HK í toppslag næstu efstu deildar kvenna í danska handknattleiknum á laugardaginn. Leikurinn fór fram í Rødovre. Kötlu Maríu var einnig einu sinni vísað af leikvelli.
- Holstebro hefur 14 stig eftir sjö leiki. Rødovre HK er í öðru sæti með átta stig en hefur lokið sex leikjum.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Þýski landsliðsmaðurinn í handknattleik, Fabian Wiede, leikur ekki fleiri leiki á keppnistímabilinu. Staðfest er að Wiede sleit krossband í hné í viðureign Füchse Berlin og One Veszprém á fimmtudagskvöldið í Ungverjalandi. Wiede meiddist eftir 11 mínútna leik. Þegar hann kom heim til Þýskalands með liðsfélögum sínum á föstudag voru meiðsli hans staðfest.
- Ole Pregler leikmaður Gummersbach hefur ákveðið að ganga til liðs við Göppingen næsta sumar. Pregler kom til Gummersbach sumarið 2021 og hefur gert það gott í sívaxandi liði.
- Michael Apelgren þjálfari ungversku bikarmeistaranna Pick Szeged sem Janus Daði Smárason landsliðsmaður leikur með hefur skrifað undir nýjan samning um þjálfun liðsins til ársins 2028. Apelgren var orðaður við landsliðsþjálfarastarfið á Íslandi áður en Snorri Steinn Guðjónsson var ráðinn vorið 2023. Apelgren tók við þjálfun Pick Szeged sumarið 2024 en var í raun ráðinn árið áður en fékk að ljúka samningi sínum við sænska liðið IK Sävehof áður en hann flutti til Ungverjalands.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -




