- Auglýsing -
- David Davis þjálfari Dinamo Búkarest hættir hjá félaginu í lok leiktíðar í vor. Daninn Nicolej Krickau, sem sagt var upp hjá Flensburg í desember, er einn þeirra sem nefndur er sem eftirmaður Davis. Einnig er nafn Paulo Perreira landsliðsþjálfara og þjálfara Celje í Slóveníu nefnt til sögunnar. Davis tók við þjálfun rúmenska meistaraliðsins síðasta sumar.
- Davis mun hafa verið tilkynnt eftir tapleik fyrir Magdeburg í fyrri umferð útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku að krafta hans yrði ekki lengur óskað þegar leiktíðinni lýkur. Dinamo Búkarest sækir Magdeburg heim í kvöld í síðari umferð útsláttarkeppninnar. Magdeburg vann fyrri leikinn með fjögurra marka mun, 30:26.
- Hollenski handknattleiksmaðurinn útsjónarsami, Luc Steins, hefur skrifað undir nýjan samning við Paris Saint-Germain Handball fram til ársins 2029. Steins kom til félagsins fyrir fjórum árum. Hann hefur síðustu misseri verið sterklega orðaður við þýsk félagslið en nú er ljóst að ekkert verður af flutningi Steins yfir landamærin á næstunni.
- Hinn gamalreyndi króatíski markvörður Mirko Alilovic hefur skrifað undir samning við pólska meistaraliðið Wisla Plock til eins árs. Nokkur ár eru liðin síðan Alilovic hætti að leika með króatíska landsliðinu.
- Nokkuð er síðan norski landsliðsmarkvörðurinn Torbjørn Bergerud skrifaði undir samning við Wisla Plock og kemur til félagsins frá Kolstad í sumar. Óvissa er hins vegar um hvort Viktor Gísli Hallgrímsson verði áfram með Wisla Plock. Viktor Gísli hefur oft verið orðaður við Barcelona síðasta árið, hið minnsta.
- Danska handknattleikskona Ida Hoberg, sem lék með KA/Þór síðari hluta keppnistímabilsins 2022/2023, hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið EH Aalborg. Hoberg leikur núna með Blomberg-Lippe í Þýskalandi. Samningur hennar við Blomberg-Lippe rennur út í sumar.
- Auglýsing -