- Auglýsing -
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði þrjú mörk úr níu skotum þegar lið hans Skanderborg AGF vann mikinn baráttusigur á Skjern á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld, 23:21. Donna tókst ekki að leika með liði sínu til leiksloka vegna þess að hann fékk rautt spjald við þriðju brottvísun 11 mínútum fyrir leikslok.
- Donni átti níu markskot í leiknum. Einnig átti hann tvær stoðsendingar. Staðan var jöfn í hálfleik, 10:10. Með sigrinum færðist Skanderborg AGF upp í fjórða sæti með 23 stig eftir 19 leiki.
- Daníel Þór Ingason kom aðallega við sögu í varnarleik Balingen-Weilstetten þegar liðið tapaði fyrir Ludwigshafen, 35:31, á útivelli í 2. deild þýska handknattleiksins í gærkvöld. Samkvæmt tölfræði leiksins varði Daníel Þór eitt skot í vörninni.
- Ludwigshafen var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14. Balingen-Weilstetten er í fjórða sæti 2. deildar með 25 stig að loknum 19 leikjum. Liðið er þremur stigum á eftir Bergischer HC sem trónir á toppnum. GWD Minden og Hüttenberg hafa einnig safnað 25 stigum hvort en hafa lokið 18 leikjum. Keppni er ríflega hálfnuð í 2. deildinni.
- Hinn tvítugi handknattleiksmaður HK, Örn Alexandersson, hefur skrifað undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt HK. Örn hefur leikið með meistaraflokksliði HK í vetur. Hann á ekki langt að sækja handknattleikshæfileikana. Faðir Arnar, Alexander Arnarson, var burðarás í HK-liðinu um árabil.
- Auglýsing -