- Auglýsing -
- Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði tvisvar sinnum þegar lið hans IFK Kristianstad vann IFK Skövde, 29:26, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik á heimavelli í gær. Leikurinn var sá fyrsti í áttundu umferð deildarinnar. Með sigrinum færðist IFK Kristianstad upp í þriðja sæti deildarinnar með 9 stig. Ystads IF er efst með 12 stig að loknum sjö leikjum.
- Stiven Tobar Valencia skoraði fjögur mörk í fjögurra marka sigri Benfica á Avanca/Bioria, 32:28, á heimavelli í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Einnig var Stiven einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Benfica er sem fyrr í þriðja sæti portúgölsku 1. deildarinnar, næst á eftir Porto og Sporting sem eru taplaus eftir átta leiki. Benfica lék sinn níunda leik í gærkvöld.
- Stöðuna í ýmsum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði þrjú mörk, öll úr vítaköstum, þegar lið hans Bjerringbro/Silkeborg vann Nordsjælland, 29:28, á heimavelli í gær í 8. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Bjerringbro/Silkeborg færðist upp í annað sæti deildarinnar, alltént um tíma, með þessum sigri. Liðið er tveimur stigum á eftir GOG sem er efst og taplaust eftir sjö leiki. Aalborg og Fredericia HK er tveimur stigum á eftir Bjerringbro/Silkeborg og eiga leiki til góða.
- Grétar Ari Guðjónsson varði 4 skot, 18%, þann tíma sem hann stóð vaktina í marki US Ivry gegn Cesson-Rennes á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Ivry tapaði leiknum, 34:28, og er áfram neðst án stiga í deildinni eftir sjö leiki. Darri Aronsson er ennþá frá keppni vegna meiðsla.
- Stöðuna í ýmsum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Hlynur Leifsson verður eftirlitsmaður á viðureign norska liðsins ØIF Arendal og Bianco Monte Drama 1986 sem fram fer í Sparebanken Sør Amfi í Arendal í Noregi á morgun sunnudag. Leikurinn er sá fyrri á milli liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Dagur Gautason leikur með ØIF Arendal.
- Hafþór Einarsson fyrrverandi markvörður Akureyrar handboltafélags og Aftureldingar í handknattleik hefur verið skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu greininga og fjármála í mennta- og barnamálaráðuneytinu.
- Auglýsing -