- Auglýsing -
- Einar Bragi Aðalsteinsson var næst markahæstur hjá IFK Kristianstad þegar liðið vann IFK Skövde, 36:24, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Einar Bragi skoraði sex mörk í átta skotum. Með sigrinum færðist IFK Kristianstad upp í annað sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir fimm leiki. Malmö er efst með 10 stig en hefur leikið einum leik fleira.
- Óttast er að litháiski handknattleiksmaðurinn Jonas Truchanovicius hafi slitið krossband í þriðja sinn á ferlinum í viðureign Stuttgart og Melsungen á sunnudaginn. Ekki eru nema 13 mánuðir síðan Truchanovicius sleit síðast krossband í hné og var ekki kominn vel af stað og búinn að leika með Stuttgart frá upphafi keppnistímabilsins.
- THW Kiel hefur einnig orðið fyrir áfalli. Danski landsliðsmaðurinn Emil Madsen meiddist á hné í viðureign liðsins við Rhein-Neckar Löwen á sunnudaginn. Forsvarsmaður THW Kiel sagði í gær að útlit væri fyrir að Madsen verði frá keppni í einhverjar vikur, jafnvel mánuði.
- Forsvarsmenn danska kvennaliðsins, Bjerringbro FH, hafa tekið ákvörðun um að auglýsa ekki veðmálafyrirtæki á búningum liðsins. Hvetja þeir um leið forráðamenn annarra félaga að leiða hugann að því hvaða auglýsingar eru á búningum. Stjórnendur Bjerringbro HF í ljósi umræðu um veðmál íþróttafólks og ungmenna sé óviðunandi að þeirra mati að íþróttafólk gangi í búningum sem merktir eru veðmálafyrirtækjum.