- Auglýsing -
- Elmar Erlingsson og félagar í þýska handknattleiksliðinu Nordhorn-Lingen voru gestgjafar afar sterks móts um nýliðna helgi þegar Evrópumeistarar Barcelona, þýska liðið Flensburg og Montpellier frá Frakklandi komu í heimsókn til Nordhorn og reyndu með sér. Rífandi góð stemning og aðsókn var á leiki mótsins en keppnishöllin í Nordhorn rúmar liðlega fjögur þúsund áhorfendur.
- Elmar var í stóru hlutverki hjá Nordhorn, ekki síst í sóknarleiknum. Hann skoraði fimm mörk á laugardaginn þegar Flensburg vann Nordhorn, 36:28. Maximilian Lux var markahæstur með sex mörk og Emil Jakobsen var atkvæðamestur hjá Flensburg með sjö mörk.
- Á sunnudeginum mættu Elmar og félagar Evrópumeisturum Barcelona og töpuðu með 12 marka mun, 39:27. Evrópumeistararnir sýndu allar sínar bestu hliðar í leiknum eftir naumt tap fyrir Montpellier daginn áður. Elmar skoraði fjögur mörk.
- Petar Cikusa var atkvæðamestur hjá Barcelona með sjö mörk. Elmar og Cikusa voru í eldlínunni á EM 20 ára landsliða í sumar. Sá síðarnefndi var í aðalhlutverki hjá Evrópumeisturum Spánar.
- Luís Frade var næstur af markaskorurum Barcelona með sex og mörk og Domen Makuc skoraði fimm mörk.
- Flensburg vann Montpellier, 43:34, í síðari leik sunnudaginn og hafði þar með betur í báðum leikjum sínum á mótinu.
Hér er hlekkur inn á myndasyrpu frá leikjum mótsins á sunnudaginn.
- Janus Daði Smárason skoraði eitt mark þegar hans nýja lið, Pick Szeged, vann pólska liðið Industria Kielce, 33:26, á æfingamóti á sunnudaginn. Daginn áður vann Pick Szeged þýska liðið MT Melsungen, 27:23, á sama móti. Janus Daði skoraði tvö mörk í þeirri viðureign. Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson voru ekki með MT Melsungen í leiknum.
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og samherjar hennar í Kristianstad HK unnu Ystads, 33:21, í annarri umferð 5. riðlis á fyrsta stigi sænsku bikarkeppninnar í handknattleik í gær.
- Jóhanna Margrét skoraði ekki mark í leiknum. Berta Rut Harðardóttir var ekki í leikmannahópi Kristianstad HK. Liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í bikarkeppninni og á góða möguleika á sæti í 16-liða úrslitum.
- Auglýsing -