- Auglýsing -
- Leikmenn Ribe-Esbjerg léku við hvern sinn fingur þegar þeir lögðu Lemvig, 31:22, í áttundu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar á heimavelli í gærkvöld. Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar í þessum örugga sigri. Ágúst Elí Björgvinsson spreytti sig á einu vítakasti sem honum tókst ekki að verja en kom að öðru leyti lítið við sögu enda félagi hans Niklas Kraft vel upplagður.
- Færeyingurinn Vilhelm Poulsen, sem gerði það gott með Fram frá 2020 til 2022, skoraði þrjú mörk fyrir Lemvig auk þess að ganga vasklega fram í vörninni. Mátti hann sætta sig við að vera tvisvar vikið af leikvelli.
- Ribe-Esbjerg situr í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 10 stig. Stöðuna í deildinni og í fleiri deildum Evrópu er að finna hér.
- Hvorki Arnór Snær Óskarsson né Ýmir Örn Gíslason skoruðu þegar Rhein-Neckar Löwen tapaði óvænt fyrir nýliðum Eisenach, 29:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Leikurinn fór fram í heimabæ Eisenach-liðsins sem hefur gert nokkrum stærri liðum skráveifu í upphafsleikjum deildarinnar. Fyrir vikið situr Eisenach í 10. sæti af 18 liðum. Rhein-Neckar Löwen er í fjórða sæti en stöðuna í þýsku 1. deildinni og fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Tryggvi Þórisson var ekki í leikmannahópi Sävehof þegar liðið vann Alingsås, 29:28, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld í upphafsleik sjöttu umferðar. Með sigrinum komst Sävehof í efsta sæti deildarinnar. Liðin tvö sem eru næst á eftir, Amo og Hammarby, eiga leik til góða.
- Hollenski landsliðsmaðurinn Tom Jansen leikur ekki með Gummersbach næstu mánuði eftir að hann sleit krossband í hné í viðureign Gummersbach og Balingen-Weilstetten á laugardaginn. Jansen var nýlega mættur út á völlinn aftur eftir langvarandi meiðsli. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og með liðinu leikur Elliði Snær Viðarsson.
- Þýska handknattleiksliðið Hüttenberg sem leikur í 2.deild karla er í fjárhagsvanda. Félaginu vantar a.m.k. 500.000 evrur, um 75 milljónir króna, til þess að endar nái saman á keppnistímabilinu. Ástæða þessa eru skuldir sem hlóðust upp á covid-tímanum sem ekki hefur tekist að greiða niður. Takist ekki að skrapa saman þessum peningum fyrir lok leiktíðar er framtíð félagsins í óvissu. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfaði hjá Hüttenberg frá 2015 til 2017. Á þeim tíma fór liðið úr 3.deild og upp í þá fyrstu. Á þeim tíma lék Ragnar Jóhannsson með liði félagsins.
- Auglýsing -