- Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk þegar MT Melsungen vann Flensburg afar örugglega, 33:24, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Selfyssingurinn átti einnig tvær stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson var ekki á meðal þeirra sem skoruðu fyrir MT Melsungen að þessu sinni. Ian Barrufet var markahæstur hjá Melsungen með átta mörk. Simon Pytlick skoraði sex mörk og var markahæstur hjá
- Flensburg-liðinu sem leikið hefur verið í vetur en komst lítt áleiðis gegn efsta liði deildarinnar að þessu sinni.
Melsungen er efst í deildinni með 20 stig að loknum 12 leikjum. Hannover-Burgdorf er skammt á eftir með 18 stig að loknum 11 leikjum.
- Illa gengur hjá Ými Erni Gíslasyni og félögum í Göppingen. Þeir töpuðu í heimsókn til HC Erlangen í Nürnberg í gærkvöld, 28:24. Ýmir skoraði ekki en tók hressilega á í vörninni og var einu sinni vikið af leikvelli. Þetta var aðeins annar sigur Erlangen í deildinni. Liðið er í 16. sæti af 18 liðum með fjögur stig, tveimur stigum á eftir Göppingen.
- Grétar Ari Guðjónsson varði ekki skot í marki US Ivry í gærkvöld þær rúmlega níu mínútur sem hann fékk að spreyta sig þegar liðið steinlá í heimsókn til Montpellier, 39:23, í efstu deild franska handknattleiksins.
- Ivry rekur lestina í frönsku 1. deildinni með 1 stig eftir 11 leiki. Stöðuna í frönsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Katrine Lunde markvörður norska landsliðsins fór heim til Kristiansand í Noregi frá Innsbruck eftir að hafa leikið með norska landsliðinu í fyrsta leik þess í riðlakeppni Evrópumótsins. Lunde er væntanleg til Vínarborgar í milliriðlakeppni mótsins.
Brottför Lunde eftir fyrsta leik var ákveðin fyrir löngu. Hún vill vera heima að sinna dóttur sinni sem er í Kristiansand. - Sambýlismaður Lunde, Nikola Trajkovic, er nú um stundir knattspyrnuþjálfari Serbíu og á þar af leiðandi erfitt með að hugsa um dóttur sína í Noregi. Lunde fer með dóttur sína á næstu dögum til föðurins áður en hún kemur aftur til móts við norska landsliðið í Vínarborg.
- Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur endanlega vísað frá óskum norska handknattleikssambandsins til að skrá tvo leikmenn inn í norska hópinn á EM, leikmenn sem eru heima í Noregi. EHF tekur ekki ljósrit af vegabréfum sem gild gögn þegar skrá á leikmenn til leiks á EM. Leikmenn verði að vera á staðnum og framvísi vegabréfi við skráningu inn í mótið. Norska sambandið ætlaði að spara sér uppihald fyrir tvo leikmenn og skildi þá eftir heima en ætlaði síðan að skrá þá til leiks ef á þyrfti að halda.
- Norskir fjölmiðlar segja fleiri landslið vera í svipuðum vandræðum og norska landsliðið. M.a. hafi Danir fengið synjun á skráningu Sandra Toft og Sarah Paulsen með því að framvísa ljósriti af vegabréfi.
- Auglýsing -