- Auglýsing -
- Elvar Ásgeirsson og samherjar í Ribe-Esbjerg unnu langþráðan sigur í dag þegar þeir lögðu Nordsjælland, 32:27, á útivelli í 6. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Elvar skoraði þrjú mörk í þremur skotum. Einnig átti hann þrjár stoðsendingar. Ribe-Esbjerg lyftist upp í áttunda sæti af 14 liðum með fimm stig.
- Endir var bundinn á sigurgöngu Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna, og félagar í Skanderborg í dag þegar þeir töpuðu á heimavelli fyrir Mors-Thy, 31:28. Donni náði sér ekki á strik og skorað tvö mörk í níu skotum. Mors-Thy fór upp í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum. Liðið hefur 11 stig eftir sex leiki. Aalborg Håndbold er einu stigi og einum leik á eftir.
- Skanderborg er í þriðja sæti með átta stig að loknum sex leikjum.
- Guðmundur Bragi Ástþórsson, Ísak Gústafsson og liðsfélagar í TMS Ringsted töpuðu á heimavelli fyrir Bjerringbro/Silkeborg, 32:23, í viðureign liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Guðmundur Bragi skoraði tvö mörk í fimm skotum auk einnar stoðsendingar. Ísak skoraði eitt mark í fjórum skotum og er skráður fyrir einni stoðsendingu. TMS Ringsted situr í 12. sæti með 3 stig eftir sex viðureignir.
- Sveinn Jóhannsson lék með Chambéry í rúmar átta mínútur og skoraði ekki mark á þeim tíma þegar liðið vann Limoges, 32:29, í fimmtu umferð efstu deildar franska handknattleiksins í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Chambéry í deildinni og situr liðið í 12. sæti af 16 með þrjú stig.
- Stöðuna í frönsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Grétar Ari Guðjónsson markvörður fagnaði sigri með félögum sínum í AEK þegar þeir lögðu Athenian A.S. Byronas, 37:29, á heimavelli í fjórðu umferð grísku 1. deildarinnar í handknattleik í dag. AEK er í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Olympiakos. Því miður reyndist torsótt að finna upplýsingar um frammistöðu Grétars Ara í leiknum.
- Stíft er leikið í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik þessa dagana. Arnór Viðarsson og liðsfélagar í HF Karlskrona voru mættir til Stokkhólms í dag hvar þeir mættu Hammarby og töpuðu með 10 marka mun, 40:30, í sjöttu umferð deildarinnar. Arnór skoraði tvö mörk, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli. Karlskrona er í sjötta sæti með sex stig. Hammarby er þremur stigum ofar í öðru sæti. Karlskrona lék þar áður á fimmtudagskvöld.
- Elmar Erlingsson og liðsfélagar í Nordhorn-Lingen töpuðu illa í heimsókn til Balingen-Weilstetten í dag í 2. deild þýska handknattleiksins. Þeir töpuðu með 12 marka mun, 35:23. Elmar skoraði tvö mörk, átti tvær stoðsendingar og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Nordhorn-Lingen er í sjötta sæti deildarinnar með sjö stig eftir sex leiki. Balingen-menn hafa átta stig í þriðja sæti.
- Tjörvi Týr Gíslason mátti einnig sætta sig við að tapa í dag með félögum sínum í HC Oppenweiler/Backnang er þeir sóttu heim TSV Bayer Dormagen í slag neðstu liða 2. deild þýska handknattleiksins, 29:24. Tjörvi Týr skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli. HC Oppenweiler/Backnang rekur lestina í deildinni með tvö stig þegar sex viðureignir eru að baki.
- Viktor Petersen Norberg átti mjög góðan leik með Elbflorenz er liðið vann TuS N-Lübbecke, 35:30, á heimavelli í 2. deild þýska handknattleiksins. Viktor skoraði sex mörk og gaf fimm stoðsendingar. Eldflorenz situr í fjórða sæti átta stig af 12 mögulegum.
- Stöðuna í þýsku 2. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -