- Auglýsing -
- Elvar Örn Jónsson lék ekki með Melsungen gegn HSV Hamburg i þýsku 1. deildinni á fimmtudagskvöld vegna meiðsla á öxl sem hann hlaut í viðureign Melsungen og Leipzig á síðasta laugardag. Óvíst er um þátttöku Selfyssingsins í heimsókn til Kiel á morgun.
- Lettneski landsliðsmarkvörðurinn Rolands Lebedevs sem lék um árabil með Herði hefur ákveðið að leika í Þýskalandi á komandi leiktíð. Alltént hafa skipti hans til Þýskalands verið staðfest á félagaskiptavef HSÍ.
- Írena Björk Ómarsdóttir, markvörður, hefur fengið félagaskipti úr Fram yfir til Hauka.
- Hinn margreyndi markvörður, Birkir Fannar Bragason, hefur á ný gengið til liðs við FH eftir tveggja ára veru hjá Kórdrengjum sem drógu sig úr keppni á Íslandsmótinu á dögunum. Óvíst er hversu mikið Birkir Fannar á eftir að leika með FH.
- Dagur Fannar Möller hefur kvatt Val og skipt yfir til Fram. Hann lék sinn fyrsta leik með Fram gegn Gróttu í Olísdeildinni í fyrrakvöld og skoraði m.a. þrjú mörk.
- Línumaðurinn sterki, Victor Máni Matthíasson, er orðinn liðsmaður Stjörnunnar. Viktor Máni lék síðast hér á landi með Fjölni leiktíðina 2021/2022 en lagði þá land undir fót og hélt til Færeyja fyrir um ári og varð liðsmaður StÍF.
- Færeyski markvörðurinn Andri Kristiansson Hansen sem lék með Fjölni í Grill 66-deildinni á síðasta tímabili hefur fengið félagaskipti til Færeyja.
- Victor Manuel Peinado Iturrino sem lék með Herði í Olísdeild karla hefur fengið uppáskrifuð félagaskipti til Spánar.
- Aníta Theodórsdóttir er orðin liðsmaður Stjörnunnar á nýjan leik eftir að hafa leikið með FH.
- Hannes Jón Jónsson og leikmenn hans í Alpla Hard unnu Hollabrunn, 32:17, í annarri umferð austurrísku efstu deildar karla í handknattleik á heimavelli í gær. Alpla Hard hefur unnið tvær fyrst viðureignir sínar í deildinni.
- Auglýsing -