- Auglýsing -
- Elvar Otri Hjálmarsson og Anna Karen Jónsdóttir voru valin bestu leikmenn meistaraflokksliða Fjölnis á lokahófi handknattleiksdeildarinnar sem haldið var á dögunum en frá þessu er greint á Facebooksíðu deildarinnar.
- Óðinn Freyr Heiðmarsson og Sara Björg Davíðsdóttir fengu viðurkenningu fyrir mestar framfarir á keppnistímabilinu.
- Alex Máni Oddnýjarson og Katrín Erla Kjartansdóttir urðu fyrir valinu á efnilegustu leikmönnum Fjölnisliðsins.
- Enn fremur völdu leikmenn besta liðsfélagann og þar urðu fyrir valinu kvennamegin Ada Kozicka og karlamegin voru þeir Óðinn Freyr Heiðmarsson og Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson jafnir á atkvæðum.
- Staðfest var í gær að Spánverjinn Carlos Ortega verður næsti þjálfari Barcelona. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Barcelona eftir að félagið greiddi fráfarandi vinnuveitanda Ortega, Hannover-Burgdorf, talsverðar bætur. Rætt hefur verið um að þær séu a.m.k. 250.000 evrur eða jafnvirði um 37 milljóna króna.
- Ortega lék með Barcelona frá 1994 til 2005 þegar hann lagði skóna á hilluna og sneri sér að þjálfun. Hann lék 144 landsleiki fyrir Spán var m.a. í bronsliði Spánar á EM 2000 og á Ólympíuleikunum sama ár. Eftir að Ortega hætti að spila þjálfaði hann í sex ár hjá BM Antequera áður en hann var ráðinn þjálfari Veszprém í Ungverjalandi 2012 hvar hann var í þrjú ár. Eftir brotthvarfið frá Veszprém var Ortega landsliðsþjálfari Japans um eins árs skeið og þjálfari KIF Kolding Köbenhavn frá 2016 til 2017 er hann var ráðinn til Hannover-Burgdorf.
- Eftirmaður Ortega hjá Hannover-Burgdorf verður Christian Prokop fyrrverandi landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik karla. Prokop náði athyglisverðum árangri með Leipzig áður en hann tók við af Degi Sigurðssyni sem landsliðsþjálfari Þýskalands 2017. Prokop stóð ekki undir væntingum og Alfreð Gíslason leysti hann af snemma árs 2020. Síðan hefur Prokop ekki unnið við þjálfun enda samningsbundinn þýska handknattleikssambandinu til ársins 2022.
- Auglýsing -