- Auglýsing -
- Norski landsliðsmaðurinn Christian O’Sullivan leikur ekki með þýska meistaraliðinu SC Magdeburg á næstunni. Hann meiddist í leik á HM og gekkst undir speglun á hné í fyrradag. Til viðbótar tognaði Svíinn Albin Lagergren á æfingu í fyrradag og verður frá keppni um óákveðinn tíma. Alltént verður Lagergren ekki með Magdeburg gegn pólska liðinu Kielce í kvöld í Meistaradeild Evrópu.
- Ómar Ingi Magnússon er ennþá úr leik vegna ökklameiðsla. Í tilkynningu Magdeburg segir að vonir standi til þess að hann verði klár í slaginn á næstu vikum. Meira er ekki sagt.
- Keppni í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla hefst á nýjan leik í kvöld með fjórum leikjum. Janus Daði Smárason og liðsmenn Pick Szeged taka á móti RK Zagreb í B-riðli. Norska meistaraliðið Kolstad, sem teflir fram fjórum Íslendingum, Arnóri Snæ Óskarssyni, Benedikt Gunnari Óskarssyni, Sigvalda Birni Guðjónssyni og Sveini Jóhannssyni, mætir toppliði frönsku 1. deildarinnar, Nantes, í Þrándheimi. Liðin eru einnig í B-riðli.
- Eins og áður segir þá sækir Magdeburg, með Gísla Þorgeir Kristjánsson innanborðs, heim pólska liðið Industria Kielce. Magdeburg verður að vinna til þess að halda í einhverja von um sæti í útsláttarkeppninni en aðeins fjórar umferðir eru eftir og staða Magdeburg er ekki góð. Sömu sögu er að segja af stöðu Kolstad.
- Fjórði leikurinn verður á milli Aalborg Håndbold og Barcelona í Sparekassen Danmark Arena í Álaborg. Bæði lið eru í góðum málum í B-riðli, í efsta og þriðja sæti
- Danska handknattleiksliðið HØJ, sem er með bækistöðvar á Sjálandi, ætlar að ráða nýjan þjálfara í sumar. Jesper Fredin þjálfari liðsins síðustu sjö ár lætur af störfum og við tekur Stian Tønnesen sem þjálfaði m.a. Malmö frá 2016 til 2022 og var þjálfari IFK Kristianstad þegar liðið varð sænskur meistari 2023.
- Forsvarsmenn HØJ ætla sér mikla hluti á næstu árum. Liðið er á góðri leik upp í dönsku úrvalsdeildina og á dögunum tryggði félagið sér starfskrafta sænska landsliðsmannsins Hampus Wanne fyrir næstu leiktíð. Meðal núverandi leikmanna HØJ er Hans Lindberg fyrrverandi landsliðsmaður Dana og markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar frá upphafi.
- Danski handknattleiksmaðurinn Michael Damgaard sem leikið hefur með Magdeburg kann að vera á heimleið í sumar eftir 10 ár hjá þýska liðinu. Danskir fjölmiðlar greina frá að meðal félaga sem renna til hans hýru auga sé Team Sydhavsøerne sem leikur í næst efstu deild en það mun vera hans uppeldisfélag. Damgaard er frá bænum Rødby á suður Falstri. Einn böggull fylgir skammrifi fyrir skiptum Damgaard til uppeldisfélagsins en það er að hann vill fá 78.000 danskra króna í laun mánuði, jafnvirði 1,5 milljóna íslenskra kr.