Örvhenta skyttan Steffen Weinhold leikur ekki með Kiel í kvöld gegn Veszprém í Meistaradeild Evrópu. Weinhold fékk þungt höfuðhögg í leik Kiel og Nordhorn um síðustu helgi þegar hann skall með höfuðið í gólfið eftir að hafa verð hrint í uppstökki. Eftir ítarlega rannsókn var það niðurstaðan að Weinhold þarf að taka sér hvíld frá handbolta um skeið.
Viðureign Flensburg og Pick Szeged sem fram átti að fara á morgun í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki hefur verið frestað eftir að þrír leikmenn Szeged greindust jákvæðir við skimum vegna kórónuveirunnar. Þetta er í annað skiptið sem veiran stingur sér niður í herbúðir ungverska liðsins. Í byrjun september var mörgum leikjum liðsins frestað eftir að nokkrir leikmenn og starfsmenn greindust smitaðir.
Hert hefur verið á samkomum fólks í Slésvík-Holtsetaland. Í kjölfarið mega Flensburg og Kiel ekki hafa fleiri en 100 áhorfendur á næstu heimaleikjum sínum í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Að undanförnu hafa allt að 2.000 áhorfendur mátt vera á heimaleikjum Kiel í stóru íþróttahöll félagsins en nú verður breyting á.
Danski landsliðsmaðurinn René Toft Hansen flutti heim til Danmerkur í sumar eftir átta ár í útlöndum. Hann lék m.a. með Kiel og Veszprém á þessum tíma. Hansen, sem er 35 ára gamall, segist njóta þess vel að leika heima á þessari leiktíð. Álagið sé minna en áður, líkaminn því í betra ástandi en þegar álagið var meira. Hansen er ekkert á þeim buxunum að hætta. „Meðan ég hef ánægju af handboltanum og hlakka til næsta leiks þá held ég áfram,“ sagði Hansen í samtali við danska fjölmiðla. Samningur Hansen við Bjerringbro/Silkeborg gildir fram á mitt árið 2023.