- Auglýsing -
- Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk og átti þrjár stoðsendingar þegar SC Magdeburg vann fjórtánda sigurinn í þýsku 1. deildinni í gærkvöldi. Magdeburg vann þá Hannover-Burgdorf, 31:27, á útivelli. Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg sem er með sex stiga forskot í efsta sæti deildarinnar. Ómar Ingi átti eina stoðsendingu. Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
- Alexander Petersson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu í níu marka sigri Melsungen á útivelli á móti Balingen, 34:25, í þýsku 1. deildinni. Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark og átt tvær stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki mark fyrir Melsungen ekkert fremur en Daníel Þór Ingason fyrir Balingenliðið. Oddur Gretarsson er ennþá frá keppni.
- Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk og átti fjórar stoðsendingar þegar lið hans Stuttgart tapaði fyrir Lübbecke, 27:23, á útivelli í gærkvöld í þýsku 1. deildinni. Andri Már Rúnarsson, leikmaður Stuttgart hafði hægt um sig í leiknum.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrisvar sinnum fyrir Bergischer HC í fjögurra marka tapi fyrir neðsta liði þýsku 1. deildarinnar, GWD Minden, 25:21.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson og samherjar í IFK Skövde máttu sætta sig við sjö marka tap fyrir Lugi í Lundi í gærkvöld í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 28:21. Bjarni Ófeigur skoraði þrjú af mörkum Skövde-liðsins.
- Ekkert lát er á sigurgöngu Aðalsteins Eyjólfssonar og lærisveina hans í Kadetten Schaffhausen í svissnesku úrvalsdeildinni í handknattleik. Í gær kjöldrógu þeir liðsmen Genfar, 39:21, á útivelli. Kadetten er með 27 stig eftir 14 leiki og hefur átta stiga forskot á næsta lið eftir 14 umferðir.
- Auglýsing -