- Auglýsing -
- Fredericia HK tyllti sér á topp dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær með sigri á Skjern, 23:20, á heimavelli í 3. umferð. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK sem hefur fimm stig eftir þrjá leiki. Aalborg og Ribe-Esbjerg eru með fjögur stig hvort lið eftir tvo leiki í næstu tveimur sætum á eftir. Einar Þorsteinn Ólafsson lék ekki með Fredericia HK. Hann er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
- Andrea Jacobsen skoraði tvisvar sinnum og átti tvær stoðsendingar þegar lið hennar, Silkeborg-Voel, tapaði með 14 marka mun fyrir SønderjyskE, 36:22, í annarri umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Aðeins var eins marks munur á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 17:16. Einstefna tók við hjá heimaliðinu í síðari hálfleik. Silkeborg-Voel er með tvö stig eftir tvo leiki.
- Róbert Sigurðarson og félagar í Drammen unnu annan leik sinn í röð í norsku úrvalsdeildinni í gær þegar þeir lögðu Sandnes, 29:21, á heimavelli. Róbert fór mikinn í vörn Drammen sem hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á keppnistímabilinu.
- Forráðamenn Drammen binda miklar vonir við Róbert. Honum er ætlað að verða kjölfestan í vörn liðsins á keppnistímabilinu og koma í stað Óskars Ólafssonar sem lagði skóna á hilluna í sumar.
- Stiven Tobar Valencia skoraði sex mörk og var með fullkomna skotnýtingu þegar Benfica vann Belenenses, 30:17, á heimavelli í annarri umferð portúgölsku 1. deildarinnar í gær. Þetta var fyrsti sigur Benfica í deildinni en liðið tapaði fyrir Orra Frey Þorkelssyni og samherjum í Sporting eins kom fram á handbolti.is á fimmtudaginn.
- Sveinbjörn Pétursson stóð sannarlega fyrir sínu í marki EHV Aue í gær þegar liðið tapaði fyrir ASV Hamm, 33:29, á heimavelli í þýsku 2. deildinni. Sveinbjörn varði 12 skot, þar af eitt vítakast, 33,3%. EHV Aue endurheimti sæti sitt í deildinni í vor en hefur enn sem komið ekki tekist að vinna leik en tvær umferðir eru að baki.
- Ekki gengur heldur sem best, enn sem komið er, hjá Aðalsteini Eyjólfssyni og liðsmönnum hans í GWD Minden. Þeir töpuðu fyrir Hüttenberg á heimavelli í gær, 30:28. Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu eitt mark hvor fyrir Minden. Bjarni Ófeigur átti ennfremur tvær stoðsendingar. GWD Minden er án stiga eins og fimm önnur lið að loknum tveimur umferðum í þýsku 2. deildinni.
- Auglýsing -