- Auglýsing -
- Forsvarsmenn Vængja Júpiters slá ekki slöku við en nær daglegar fréttir berast frá þeim um komu nýrra leikmanna og ljóst að liðið verður sýnd veiði en ekki gefin í Grill66-deildinni á næstu leiktíð. Línumaðurinn sterki, Gunnar Valur Arason, er nýjasta viðbótin í leikmannahópi Vængja. Gunnar Valur kemur frá Kríu eins og fleiri síðustu daga en lið Kríu lagði upp laupana í sumar. Gunnar Valur er einnig þjálfari kvennaliðs Fjölnis/Fylkis í Grill66-deild kvenna auk þess að vera yfirþjálfari yngri flokka hjá Fjölni.
- Rússneska meistaraliðið Rostov-Don staðfesti í tilkynningu í gær að Anna Vyakhireva taki sé frí frá handknattleik um ótiltekinn tíma. Vyakhireva lýsti þessu yfir eftir keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir að hún hafði verið valin verðmætasti leikmaður handkattleikskeppni kvenna á leikunum. Vyakhireva hefur leikið með Rostov-Don í fimm ár. Félagið óskar henni velfarnaðar og vonast til þess að sjá hana einhvern tímann aftur á handknattleiksvellinum.
- Alexey Alekseev heldur ekki áfram þjálfun rússneska kvennalandsliðsins í handknattleik. Hinn aðsópsmikli forseti rússneska handknattleikssambandsins, Sergei Shishkarev, staðfesti þetta í gær. Sagði hann að þörf væri á ungum og ferskum þjálfara í starfið. Alekseev tók við þjálfun landsliðsins í desember rétt áður en rússneska landsliðið lék síðasta leik sinn á EM kvenna í Danmörki. Ambros Martín hafði þá verið gert að hypja sig með hraði úr starfi áður en mótinu lauk. Undir stjórn Alekseev hafnaði rússneska landsliðið í öðru sæti á ÓL í Tókýó í byrjun ágúst.
- Dansk/færeyski hornamaðurinn Johan Á Plogv Hansen þykir koma sterklega til greina sem eftirmaður Lasse Svan hjá Flensburg. Hansen leikur nú með Hannover-Burgdorf og hefur deilt hægri hornamannsstöðunni í danska landsliðinu með Svan síðustu mánuði.
- Markvörðurinn Dario Quenstedt yfirgefur THW Kiel næsta sumar þegar samningur hans við félagið rennur út. Félagið hefur ákveðið að bjóða honum ekki nýjan samning. Quenstedt hefur verið í herbúðum meistaraliðsins í tvö ár en allan tímann staðið í skugganum af Niklas Landin. Quenstedt er 31 árs og lék áður með TuS N-Lübbecke og SC Magdeburg.
- Auglýsing -