- Auglýsing -
- Hákon Daði Styrmisson var næst markahæstur hjá Eintracht Hagen í gærkvöld þegar liðið tapaði með eins marks mun fyrir Elbflorenz frá Dreseden, 37:36, á heimavelli í 2. deild þýska handknattleiksins. Hákon Daði skoraði sex mörk. Þetta var fyrsta tap Eintracht Hagen í deildinni á keppnistímabilinu. Áður hafði liðið unnið þrjár viðureignir.
- Hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg skoraði tvisvar fyrir Elbflorenz og átti eina stoðsendingu. Elbflorenz hefur unnið tvær viðureignir í röð eftir tvö töp í fyrstu umferðunum.
- Blásið verður til leiks í úrvalsdeild karla í Færeyjum í dag. KÍF Kollafjörður, sem Viktor Lekve tók við þjálfun hjá í sumar, sækir Team Klaksvík heim klukkan 17 í dag.
- Keppni í grísku úrvalsdeildinni í handknattleik karla hefst einnig í dag með fjórum leikjum. Grétar Ari Guðjónsson og liðsfélagar hans í AEK Aþenu eiga ekki leik fyrr en á morgun sunnudag er þeir mæta Ionikos á heimavelli. AEK tapaði naumlega fyrir meisturum Olympiakos í meistarakeppninni í vikunni, 24:23.