- Auglýsing -
- Halldór Jóhann Sigfússon og liðsmenn hans í Nordsjælland töpuðu naumlega á heimavelli, 26:25, fyrir Skanderborg AGF í 25. og næst síðustu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Leikið var á heimavelli Nordsjælland sem er í næst neðsta sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Lemvig sem rekur lestina. Kolding er stigi fyrir ofan Nordsjælland en á tvo leiki eftir.
- Lemvig á leik til góða á Nordsjælland. Eitt lið fellur úr deildinni í vor en þau sem hafna í níunda til þrettánda sæti fara í umspil. Lakasta liðið í þeirri keppni mætir liði úr næst efstu deild í leikjum þar sem sæti í úrvalsdeildinni verður í húfi.
- Aalborg Håndbold er fyrir löngu orðið deildarmeistari í úrvalsdeild karla í Danmörku. Liðið er með níu stiga forskot á Fredericia HK sem verður alveg örugglega í öðru sæti. Bjerringbro/Silkeborg er í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Fredericia HK. Aalborg Håndbold vann Bjerringbro/Silkeborg 28:25 í Silkeborg í gær.
- Fredericia HK, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar þjálfara, verður með í Evrópukeppni félagsliða á næsta keppnistímabili í fyrsta sinn í háa herrans tíð. Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum í ervrópskum handknattleik er að finna hér.
- Axel Stefánsson og leikmenn hans hjá Storhamar unnu 21. sigur sinn í norsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki í gær. Liðið lagði Molde, 29:22, í Molde. Storhamar er og verður í öðru sæti deildarinnar þegar upp verður staðið. Liðið er nú með 42 stig eftir 24 umferðir af 26. Vipers er efst með fullt hús stiga að loknum 22 leikjum.
- Stohamar leikur um helgina í síðari leik sinn við Thüringen í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Leikurinn fer fram í Hamar. Storhamar stendur vel að vígi, eftir fjögurra marka sigur, 39:35, í Þýskalandi um síðustu helgi.
- Auglýsing -