- Auglýsing -
- Danski handknattleiksmaðurinn Mikkel Hansen tilkynnti í gær formlega að hann ætlaði að hætta handknattleik í sumar. Hansen lýkur leik með Aalborg Håndbold í sumarbyrjun en ætlar að gefa kost á sér í danska landsliðinu sem tekur þátt í Ólympíuleikunum sem fram fara í lok júlí og byrjun ágúst. Hann langar til að kveðja handknattleiksvöllinn í Frakklandi þar sem hann lék í áratug með Paris Saint Germain.
- Hansen segist einfaldlega vera búinn að fá nóg af handknattleik og tími sé kominn til að snúa sér að einhverju öðru. Hvað kappinn ætlar að taka sér fyrir hendur kom ekki fram á tilfinningaþrungnum blaðamannafundi hans með stjórnendum Aalborg Håndbold í gærmorgun.
- Norska landsliðskonan Nora Mørk leikur ekki með norska landsliðinu í tveimur síðustu leikjum lansliðsins í Evrópubikarkeppninni, gegn Ungverjalandi í dag og gegn Sviss á laugardaginn. Vegna álags var ákveðið að gefa Mørk frí frá leikjunum en hún eins og fleiri stendur í ströngu með danska meistaraliðnu Esbjerg á fleiri en á einni vígstöð.
- Hannes Jón Jónsson stýrði Alpla Hard til sigur á Bregenz í grannaslag í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gær, 33:31. Alpla Hard er í öðru sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið hefur 31 stig að loknum 20 leikjum og er aðeins stigi á eftir Handball Tirol sem verið í efsta sæti nærri alla leiktíðina.
- Auglýsing -