- Auglýsing -
- Harpa Rut Jónsdóttir og samherjar hennar í svissneska meistaraliðinu LK Zug mæta hollenska liðinu Cabooter Handbal Velno í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Leikirnir fara fram eftir miðjan nóvember og eiga Harpa og félagar fyrri leikinn á heimavelli.
- Andrea Jacobsen og félagar hennar í sænska liðinu Kristianstad drógust gegn tyrkneska liðinu Ankara Yenimahalle BSK í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Verði leikið heima og að heiman verður fyrri leikurinn í Kristianstad um miðjan nóvember.
- Handknattleiksþjálfarinn Alberto Entrerrios kveður Nantes eftir núverandi keppnistímabil og tekur við þjálfun Limoges sem einnig á sæti í efstu deild franska karla handboltans. Entrerrios hefur þjálfað Nantes í áratug. Þar með er ljóst að nýr þjálfari verður við stjórnvölinn hjá Nantes þegar landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson kemur til félagsins upp úr miðju næsta ári.
- Vladan Matic, sem þjálfað hefur hið fornfræga ungverska handknattleikslið Tatabanya undanfarin sjö á hefur sagt starfi sínu lausu af heilsufarsástæðum. Tatabanya hefur gengið illa það sem af er leiktíðinni og aðeins önglað í fimm stig í fyrstu sex leikjunum í ungversku deildinni auk átta marka taps fyrir AEK Aþenu í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í síðustu viku.
- Danski handknattleiksmaðurinn Jacob Lassen yfirgefur Bjerringbro/Silkeborg á næsta sumri og gengur til liðs við HSV Hamburg í Þýskalandi. Lassen, sem er 26 ára gamall, lék sinn fyrsta landsleik fyrir Dani í apríl. Hann er í danska hópnum sem tekur þátt í móti í Noregi í næstu viku ásamt landsliðum Noregs, Frakklands og Hollands. Erlingur Richardsson er landsliðsþjálfari Hollendinga sem verða með íslenska landsliðinu í riðli á Evrópumótinu í byrjun næsta árs.
- Spænski hægri hornamaðurinn Aleix Gomez hefur endurnýjað samning sinn við Barcelona. Hann er nú samningsbundinn félaginu til ársins 2026.
- Brasilíski handknattleiksmaðurinn Rogerio Moraes gengur til liðs við Melsungen á næsta sumri samkvæmt fregnum handball-leaks en sá litli miðill á furðu oft kollgátuna. Morares er nú liðsmaður Benfica en hann yfirgaf Veszprém á síðasta sumri.
- Auglýsing -