- Auglýsing -
- Að vanda verður móttökuathöfn fyrir danska landsliðið í handknattleik karla á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í dag eins og áður þegar dönsk landslið ná framúrskarandi árangri í alþjóðlegri keppni. Gert er ráð fyrir að heimsmeistarar Dana verði komnir á Ráðhústorgið á fjórða tímanum í dag. Búist er við fjölmenni á Ráðhústorgið og að athöfnin nái hámarki þegar leikmenn ganga úr á svalir ráðhússins með styttuna sem fylgir sigrinum á heimsmeistaramótinu sem Danir unnu í fjórða sinn í röð í gær.
- Króatar ætla einnig að hylla landsliðsmenn sína þegar landsliðið kemur heim til Zagreb í dag frá Ósló með fyrstu verðlaun Króata á heimsmeistaramóti í 12 ár. Móttaka verður á Ban Jelacic torginu í miðborg Zagreb eins og stundum áður þegar landslið Króata hefur gert það gott. Reiknað er með tugum þúsunda Zagreb-búa á torgið.
- Mathias Gidsel var í gær valinn mikilvægasti eða besti leikmaður heimsmeistaramótsins í handknattleik. Þetta er í sjöunda sinn í röð sem hann er valinn í úrvalslið stórmóts.
- Magnus Landin, Henrik Møllgaard, Mads Mensah, Johan Á Plógv Hansen og Simon Hald hafa verið í danska landsliðinu sem hefur unnið heimsmeistaratitilinn fjórum sinnum í röð. Þess utan var Rasmus Lauge í sigurliðinu á HM 2019, 2023 og 2025. Lauge var ekki með á HM 2021 vegna meiðsla.
- Ricardo Costa hefur framlengt samning sinn um þjálfun portúgalska meistaraliðsins Sporting Lissabon til ársins 2030. Costa tók við þjálfun Sporting árið 2021 og hefur náð framúrskarandi árangri, m.a. í er liðið í fremstu röð í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni. Tveir synir Richardo, Martím og Francisco, eru lykilmenn liðsins.
- Francisco Costa var valinn efnilegasti handknattleikmaður heimsmeistaramótsins í handknattleik karla sem lauk í gær. Costa stendur á tvítugu. Hann skoraði 54 mörk á HM og var jafn Frakkanum Dika Mem í öðru til þriðja sæti á lista yfir markahæstu leikmenn mótsins.
- Landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson leikur undir stjórn Ricardo Costa hjá Sporting og líkar vel. Eins og handbolti.is sagði frá á dögunum hefur Orri Freyr framlengt samning sinn við Sporting til tveggja ára, fram til ársins 2027.
- Auglýsing -